laugardagur, september 29, 2007

Ekki er sama hvaðan gott kemur

Á undanförnum árum hafa Kínverjar sótt mjög í sig veðrið á framleiðslu ýmiss varnings sem notaður er við matvælaframleiðslu. Er nú svo komið að vörur frá Kína eru orðnar það miklu ódýrari að t.d. hefur stór hluti Vestrænna framleiðenda á askorbínsýru (c-vítamíni) lagt upp laupana. Askorbínsýra er m.a. notuð til að auka geymsluþol og reiða sig nú flestir á kínverska framleiðslu sem er um 80% af heimsframleiðslu.

Það hljómar vel að einhver geti framleitt sömu vöru fyrir tíunda hluta af því sem áður þekktist. Það fyrsta sem kemur í hugann eru allar kröfurnar sem t.d. evrópskar vörur þurfa að uppfylla til að komast til neytenda og hef ég einhvern veginn á tilfinningunni að í Kína sé þetta ekki svona nákvæmt. Ég spyr því: Er þetta í raun sama varan? Eftirfarandi texti gefur sterklega til kynna að svo sé ekki.

That's globalization. But there's a hidden price for cheap goods. Earlier this year, lead-contaminated multivitamins showed up on the shelves of U.S. retailers. And this spring, vitamin A from China contaminated with dangerous bacteria nearly ended up in European baby food (1).

Eftir að hafa lesið þessa klausu vakna spurningar um hve mikið af rusli sleppi á almennan markað þar sem ómögulegt er að prófa hverja einustu sendingu. Vissulega er fjöldinn allur af vörum rannsakaður og margar vörur bannaðar en stundum hafa þær líka verið teknar af markaði eftir að hafa verið til sölu í stórverslunum um hríð og jafnvel dregið neytendur til dauða (1, 2).

Þar sem mikið af þeirri vöru sem Kínverjar flytja út er notuð í Vestrænum matvælaiðnaði, og ekki tekið sérstaklega fram hvaðan hvert og eitt innihaldsefni er, er komin enn ein ástæðan til að halda sig við einfaldan, lítið unninn og góðan mat. Matvæli sem við vitum fyrir víst að þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur, eins og t.d. vottað lífrænt. Hvað segið þið um soðna ýsu, lífrænar kartöflur og dýrðlegt íslenskt salat með?

Tilvísanir:
1Frétt á www.npr.org, afar áhugaverð grein.
2Frétt á www.mbl.is

föstudagur, september 28, 2007

Sykurhólistar



Mér fannst viðeigandi, svona beint á eftir sætuefnunum, að tala aðeins um sykur. Jack LaLanne veit sko greinilega hvað hann syngur og jafnvel þó svo að myndbandið sé svarthvítt á það enn fullt erindi við nútíma-Íslendinga. Karlinn er nú ekki að skafa af hlutunum og er kærkomin hvíld í að vera laus við pólitíska rétthugsun og almenna meðvirkni nútímans, þar sem fólk læðist í kringum málefnin eins og köttur í kringum heitan graut. Sjálfur skil ég stundum ekkert hverju er verið að reyna að koma framfæri. Ímyndið ykkur bara ef læknar létu þannig. Læknirinn gæti sagt sjúklingi að hann sé að fá botnlangakast og þurfi skurðaðgerð strax eða hann gæti notað alls konar flækjur um meltingarvandamál og mögulegar hættur og sjúklingurinn dæi bókstaflega úr leiðindum áður en hann hefði hugmynd um að botnlanginn væri að springa.

Eins og þeir sem horfðu á myndbandið tóku sjálfsagt eftir er Jack ekki einhvers konar andkolvetnafanatík heldur er það fínunninn og einfaldur sykur sem hann mælir með að fólk sleppi. Miðað við tölur frá árinu 2000 eru Íslendingar Norðurlandameistarar í sykuráti með 53,3 kíló á hvern íbúa árlega. Deili maður þessu niður á 365 daga ársins eru það 146 grömm á dag, eða u.þ.b. þrefalt það magn sem mælt er með sem hámarksneyslu sykurs! Í hitaeiningum talið eru það 584 á dag, hrein orka (engin vítamín eða steinefni) eða eins og Jack orðaði svo vel: Tómar hitaeiningar. Hver vill þær? Ekki ég!

Þegar málin eru rædd í þessum tón spyrja margir hvað komi í staðinn. Að mínu mati þarf í raun ekkert að koma í staðinn fyrir viðbættan sykur þar sem hann er okkur ekki nauðsynlegur, hann er óþarfi. Margir kjósa að fara yfir í aspartamið en sjálfur mæli ég ekki með því þar sem það er engin lausn, við erum orðin allt of lin við okkur og fólk virðist halda að allur matur eigi að vera sætur. Það er til alls konar öðruvísi bragð sem líka er gott og þegar sykurneyslan hefur verið lítil eða engin í nokkurn tíma byrja oförvaðir bragðlaukar að njóta bragðsins af hollum mat. Sætur matur er þó ekki bannaður og er ég viss um að það geri öllum gott að fá uppáhaldsdesertinn sinn endrum og sinnum og finnst mér sjálfum skemmtilegt að gera svoleiðis til hátíðabrigða en óþarfi að hafa jól á hverjum degi, það er ekkert gaman.

Það er alls ekki svo vitlaust að tala um sykurhólisma því sykurinn hefur áhrif á sömu svæði í heilanum og vanabindandi vímuefni og er fólk misvel í stakk búið til að hemja slíkar nautnir. Eins og Jack nefnir í myndbandinu drekka sumir einn bjór annað slagið og lenda aldrei í vandræðum út frá því meðan alkóhólistar þurfa annan strax og svo annan og annan... Þetta er sama einkennið og fólk virðist alltaf þurfa MEIRA. Hér er áhugaverð grein á vef Lýðheilsustöðvar sem ég mæli með við þau ykkar sem þyrstir í ítarefni.

Í hverju er viðbættur sykur? Í flestum tilbúnum morgunmat (líka þeim sem sérstaklega eru markaðssettur sem megrunar- eða heilsuvara), mjólkurvöru, gosdrykkjum, sælgæti, sósum og svo mætti lengi telja. Sykurinn heitir ýmsum nöfnum en algeng eru t.d. glúkósi, frúktósi (ávaxtasykur) og gomma af alls kyns sírópum. Næst þegar þig langar í sælgæti er ágætt að staldra við og spyrja: Til hvers? Væri ekki betra að fá sér banana eða epli?

fimmtudagur, september 27, 2007

Súrsætt?

Rakst á þetta myndskeið um sætuefnið aspartame og langar til að deila því með lesendum. Gjörið svo vel!



Sjálfur hef ég aldrei verið fyrir sætuefni gefinn og er feginn því. Fyrir þá sem langar að sneiða hjá aspartami er best að sleppa öllum diet og sykurskertum gosdrykkjum og lesa vandlega innihaldslýsingar vara sem merktar eru án viðbætts sykurs (t.d. skyr.is). Eins og fram kom í myndinni eru efni af þessu tagi á ótrúlegustu stöðum m.a. innihalda vítamíntuggutöflur fyrir börn oft mikið magn aspartams og matvæli sem markaðssett eru sem heilsufæði (t.d. prótínduft).

Einfaldast af öllu er vitanlega að kaupa lítið eða óunnin matvæli og reyna eftir megni að kaupa vöru sem uppfyllir staðla fyrir lífrænt ræktuð matvæli.

þriðjudagur, september 25, 2007

Kornmeti

Það kemur svosem ekki á óvart að heyra að lítið eða ekkert unnið kornmeti sé hollara en unnið kornmeti eins og t.d. hvítt hveiti. Orðið heilkorn segir allt sem segja þarf, í því er öll sú hollusta sem kornmeti hefur upp á að bjóða og þeirri hollustu fylgja jákvæð áhrif á lífsgæði t.d. umtalsvert minni líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Efnisflokkurinn hefur verið þaulrannsakaður á undanförnum áratugum og bendir allt til að þrátt fyrir það fullnægi allt of fáir þörfinni fyrir heilkorn. Í staðinn treður fólk sig út af ónothæfum mat eins og hvítu hveiti og óteljandi morgunmatartegundum sem allt of margar samanstanda, hreint út sagt, af rusli.

Dæmi um mat sem uppfyllir kröfur þeirra sem langar til að snúa þessu við er m.a.
gróft haframjöl (tröllahafrar), hýðishrísgrjón, bygg, heilhveiti og meira að segja poppkorn. Ég mæli þó ekki með öfganeyslu á poppi þar sem það er yfirleitt borið fram með bæði mikilli fitu og salti. Hljómi þetta of flókið má alltaf nota þá þumalputtareglu að því færri sem vinnslustig matarins eru, áður en hann kemur til neytanda, því betra.

Langi þig að lesa meira bendi ég á þessa grein. Ef þú hefur áhuga á að vita hvað fólk um víða veröld lætur ofan í sig, bendi ég á þessa frábæru ljósmyndasyrpu.

Þess ber þó að geta að kornmeti og kornmeti er ekki endilega eitt og hið sama. Lífrænt ræktuð hýðisgrjón eru t.d. margfalt betri kostur en þau sem sprautuð hafa verið með skordýraeitri eða viðbjóði sem ekki kemur fram á merkingum. Einnig ber að hafa hugfast að hverja tegund fyrir sig þarf að elda eftir kúnstarinnar reglum, t.d. leggja í bleyti, ef njóta á raunverulegs heilsufarsávinnings. Verið væn við kornið og kornið mun vera ykkur vænt er lauslega þýddur titill áhugaverðrar greinar sem ég rakst á nýverið. Njótið HEIL!

Upprisa

Upp er risið Heilsuhornið! Eftir langa þögn er kominn tími til að láta að sér kveða í efnisflokki heilsu og mataræðis, heilbrigðs lífsstíls. Ég kýs að kalla það heilræði, ekki bara mataræði heldur allan pakkann. Heilræði, heilræði, heilræði, það er eina vitræna nálgunin. Hvers vegna?

Tökum sem dæmi manneskju sem æfir eins og hún eigi lífið að leysa en sefur lítið, borðar óheilsusamlega og reykir í þokkabót. Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um það að ekki dugir að hafa einn þátt í lagi, úr samhengi við hina. Líkaminn starfar sem heild og er hann hluti af annarri heild, sjálfum okkur. Hér er heilræða þörf!

Ég hygg á að setja inn mínar eigin pælingar og annað efni sem ég tel eiga erindi við lesendur. Hafi lesendur sérstakar spurningar eða fyrirspurnir af einhverju tagi reyni ég að svara þeim eftir bestu getu, ég er jú einkaþjálfari, og vona að ég geti hjálpað sem flestum.