sunnudagur, október 28, 2007

Lausn fyrir litlu plánetuna okkar?

Fyrir mörgum árum las ég ansi góða bók sem heitir Diet for a Small Planet eftir Frances Moore Lappé og hafði feykilega gaman af. Í bókinni er fjallað um hve illa mannskepnan nýtir elsku jörðina okkar við matvælaframleiðslu og hvernig bæta megi úr því.

Í bókinni má einnig finna gnótt upplýsinga sem gagnast þeim sem vilja gerast grænmetisætur eða í það minnsta auka við grænmetis-, korn- og baunaneyslu. Sú útgáfa sem ég las kom út fyrir langalöngu, einhvern tímann á áttunda áratugnum, og gæti auðveldlega hafa gleymst í þeirri bókaglás sem til er um næringu og heilsu. Hún virðist þó hafa hitt í mark því hún hefur verið endurprentuð aftur og aftur.

Vísindamenn nútímans pæla greinilega eitthvað í þessa áttina og rakst ég á ansi áhugaverða grein um hvernig megi hámarka jarðnytin, greinilega innblásin af Frances Moore Lappé. Hér er linkurinn.

fimmtudagur, október 25, 2007

Hvatningarræða Steve Jobs



Þegar ég byrjaði að blogga um heilsu og þjálfun var Steve Jobs mér ekkert sérstaklega ofarlega í huga og í þessu tæplega korterslanga myndskeiði er viðfangsefni Steves ekki heilsufræði. Myndbandið er hvatningarræða sem hann hélt við brautskráningu kandídata í Stanford árið 2005. Ég hef hlustað oftar en einu sinni á þessa ræðu og finnst mikið til hennar koma.

Skilaboð ræðunnar eiga að mínu mati erindi við alla og er einhvern veginn bara einföld og þörf áminning um að lifa lífinu lifandi. Margir gullmolar þarna á ferðinni.

þriðjudagur, október 16, 2007

Linkind

Hvar á ég að byrja? Eins og gefur að skilja les ég og fylgist vel með umræðu og nýjungum á sviði þjálfunar. Nokkuð finnst mér um að óraunhæfar væntingar séu á kreiki en tek þó fram að ég er síðasti maður til að reyna að draga úr einum né neinum á þessu sviði.

Fyrir þá sem vilja ná undraverðum árangri með ótrúlega lítilli fyrirhöfn segi ég: Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega lygi. Vissulega má segja að árangur sé oft á tíðum undraverður en manni finnst það þó sjaldnast þegar maður veit hve mikil vinna býr að baki.

Alla jafna fylgja þessum loforðum himinhá útgjöld og eru hin ýmsu fæðubótarefni og göldrum búin æfingatæki næg sönnun. Hér er eitt dæmi um slíkt. Framleiðandi tækisins býður fólki að greiða 14.615 dollara til að fá léttu leiðina heim í stofu. Ég veit ekkert um þetta tæki annað en að það er dýrt.

Ég ætla ekki að byrja að telja upp undraefnin sem neytendum standa til boða. Í flestum heilsutímaritum er ofgnótt auglýsinga fyrir þessi efni og öll segjast þau vera í fararbroddi á sínu sviði, t.d. fitubrennslu eða vöðvauppbyggingar. Einn hængur er þó á fullyrðingum þeirra! Hvernig geta 50 eða 500 ólíkir framleiðendur verið með besta undraefni sem sögur fara af? Ekki mikill fararbroddur það. Mér finnst fnykurinn af málinu gefa til kynna að þetta snúist eingöngu um létta leið til að gera örfáa ríka fremur en létta leið fyrir marga til að bæta heilsuna. Látið ekki ginnast. Ef þessar lausnir væru raunverulegar litum við öll út eins og toppíþróttafólk með því einu að borða kartöfluflögur.

Greinilegt er þó að einhver kaupir þetta dót úr því að meira og meira er framleitt og er þar um að kenna almennri linkind. Þegar agann til að skuldbinda sig til að hirða almennilega um líkamann vantar er leitað á náðir skyndilausna. Linkind einkennir allt of marga hluti í nútímanum og langar mig að taka lítið dæmi.

Um tíma bjó ég á stúdentagörðunum við Háskóla Íslands og er fimm til tíu mínútna gangur í flestar háskólabyggingar á svæðinu. Þrátt fyrir þessa æðislegu staðsetningu fóru margir á bílnum í skólann. Þarf ég að segja meira? Eru þægindin orðin okkur bókstaflegur fjötur um fót?

Fyrir skömmu skrifaði ég grein um Steve Reeves og nokkrar af hans kenningum um heilbrigt líferni. Með greininni fylgdi mynd af Reeves í toppformi og er alveg á hreinu að hann gerði gott betur en að mæta á æfingar og hafa ófáir svitalítrarnir farið í þá vinnu sem býr að baki slíkri líkamsbyggingu. Engin létt leið þar frekar en annars staðar.

Hver sem markmiðin eru þarf alltaf að feta leiðina. Sé markmiðið að brenna tveimur kílóum af fitu og bæta tveimur kílóum af vöðvum í staðinn er heilmikil vinna framundan. Sé markmiðið að brenna fimm kílóum af fitu án þess að minnka eða auka vöðvamassa er líka heilmikil vinna framundan. Hvað sem það er þá þurfum við alltaf að leggja eitthvað á okkur sjálf.

Harðsoðna útgáfan:
Linkind gerir okkur að linum kindum...
Harkan sex með hæfilegri blöndu af vitrænni nálgun og ástríðu færir okkur að markmiðum okkar :)

sunnudagur, október 14, 2007

Styrktaræfingar með líkamsþyngd

Ekkert gymm, ekkert mál! Þegar að líkamsþjálfun kemur er fátt annað en ímyndunaraflið sem takmarkar möguleikana. Þegar kemur að því að gera æfingar þar sem líkaminn er eina verkfærið gera margir þau reginmistök að reyna að finna staðkvæmar æfingar við það sem gert er í hefðbundnum lyftingasal. Slík nálgun kallar á algerlega óþarfar takmarkanir.

Allmargir telja sig kunna að gera armbeygjur, en hvað eru armbeygjur? Armbeygjur er nafn á ótrúlega stórum og fjölbreyttum hópi æfinga. Þær má gera með flata lófa á gólfinu, á krepptum hnefum, á fingurgómum eins fárra putta og maður vill. Hallanum má breyta allt frá því að halla sér standandi upp að vegg, liggja flatur á gólfinu eða standa hreinlega á höndum og vitanlega eru stigin á milli þessara möguleika eins mörg og manni sýnist.

Til að auka enn á fjölbreytni armbeygjanna má hafa breytilegt bil á milli handanna, allt frá mjög þröngu gripi, þannig að hendurnar séu nánast alveg upp við hvora aðra á gólfinu, og upp í mjög gleitt grip. Ég vil þó koma því á framfæri að margt af því sem ég hef drepið á er ekki á færi byrjenda og gæti reynst varasamt að fara of geyst, t.d. er það alls ekki allra að gera armbeygjur standandi á höndum.

Vá, og þetta var bara um armbeygjurnar! Það besta var að það sem ég taldi upp fyrir armbeygjur er langt frá því að vera tæmandi listi yfir þá möguleika sem armbeygjur bjóða upp á, laaaangt frá því, og það sama gildir um allar hinar líkamsþyngdaræfingarnar. Upphífingar, dýfur, hnébeygjur og svo mætti lengi telja.

Oft heyri ég gárunga segja að æfingar með líkamsþyngd séu einfaldlega ekki nógu krefjandi, þeir séu of sterkir fyrir svoleiðis. Það er rétt að líkamsþyngdin takmarkar þá þyngd sem æft er með, segir sig sjálft, en þá bendi ég enn og aftur á ímyndunaraflið. Hvað með að gera armbeygjur með einni hönd og hnébeygjur á öðrum fæti? Möguleikarnir eru endalausir og lengi má auka álagið eftir því sem maður styrkist.

Skemmtileg leið til að fá hörkugóða æfingu á stuttum tíma, krefst bæði styrks og þols, er að nota hinar svokölluðu börpí. Hún er framkvæmd þannig að maður stendur uppréttur í byrjun, beygir sig niður og setur lófana á gólfið fyrir framan sig, spyrnir fótunum aftur fyrir sig þannig að maður sé í plankastöðu og gerir sprengiarmbeygju um leið (þetta er allt gert í einni eldsnöggri hreyfingu), hoppar strax fram með fæturna aftur og endar svo á að stökkva upp í loftið með miklum sprengikrafti (passið þó að lenda mjúklega). Svona er einni endurtekningu lýst og sjáið hvernig ykkur líður eftir tíu eða tuttugu.

Sjálfur nota ég börpí gjarnan til að setja punktinn yfir i-ið í lok æfingar og líkar það afar vel. Ef ykkur líkar ekki við þá tegund sem ég lýsti hér á undan er lítið mál að sníða æfinguna að eigin þörfum.

Þar sem æfingar með eigin þyngd bjóða upp á svo mikla fjölbreytni er mikilvægt að finna út hvað manni finnst skemmtilegt en á sama tíma að passa upp á að líkaminn sé þjálfaður sem heild. Með svo rosalegt úrval er óþarfi að láta sér leiðast og jafnvel sniðugt að hafa nokkrar æfingaraðir í gangi sem hægt er að velja á milli eftir því hvaða stuði maður er í eða raða þeim á ákveðna daga, t.d. eina á mánudegi, aðra á miðvikudegi og þá þriðju á föstudegi.

Fleiri greinar:
Grein eftir Alwyn Cosgrove
Æðisleg börpígrein frá Ross Enamait
Hér er önnur grein eftir Ross Enamait sem inniheldur skemmtilega tillögu að snarpri æfingu

föstudagur, október 12, 2007

Margt má læra af Steve Reeves

Steve Reeves er eitt af nöfnunum sem ekki fer framhjá þeim sem hafa áhuga á heilsurækt, sögu hennar og áhrifavöldum. Leið hans inn á sjónarsviðið lá í gegnum vaxtarræktina, sem á þeim tíma var nánast óþekkt fyrirbæri og afar ólík þeirri vaxtarrækt sem tíðkast nú á dögum. Að mínu mati var sú íþrótt miklum mun heilbrigðari en efnafræðikeppnir nútímans.

Hafi nafn Steves ekki læðst að manni í gegnum heilsuræktaráhuga þá tryggði Frank-N-Furter í myndinni Rocky Horror að það kæmist til skila þegar hann tælir Brad og Janet inn til sín: We could take in an old Steeve Reeves movie, og er alveg á tæru að áhugi Frank-N-Furters snerist ekki að neinu leyti um kenningar Steves um matarræði og þjálfun. Steve Reeves var, og er enn, í augum margra einn besti fulltrúi hins heilbrigða og hrausta karlmanns, fullkomin eftirmynd grísku guðanna. Ef hvorugt dæmið klingir bjöllum meðal lesenda er kominn tími til að bæta úr því.

En hvers lags lifnað stundaði maður á borð við Steve Reeves? Æfði hann ekki kvölds og morgna? Át hann ekki sex máltíðir á dag og sneiddi hjá kolvetnum? Borðaði hann ekki reiðarinnar býsn af prótíni? Nei, ekki æfði hann kvölds og morgna, ekki var hann með kolvetna-, fitu- eða prótínáráttu og hann borðaði yfirleitt ekki nema þrisvar á dag.

Æfingaáætlanir hans voru einfaldar og það voru matarvenjurnar einnig. Til að gefa hugmynd um æfingaaðferðir hans þá voru lyftingar og kraftganga þær æfingar sem hann mælti helst með. Í kenningum sínum leggur hann til að lyftingar séu ekki stundaðar oftar en þrisvar í viku og hæfilegt sé að stunda kraftgönguna fjórum sinnum í viku u.þ.b. hálftíma í senn. Djúpöndun lagði hann einnig ríka áherslu á og taldi bein tengsl á milli hennar og aukinnar orku einstaklinga.

Hvað lyftingarnar snerti þá þjálfaði hann líkamann sem heild en breytti fjölda endurtekninga og setta í samræmi við markmið og áherslur hverju sinni. Hvernig væri lyft skipti miklu máli því lyftingar og lyftingar eru ekki alltaf sami hluturinn, einkum og sér í lagi þegar kemur að góðri og agaðri tækni.

Margt tel ég að nútímamaðurinn geti lært af kenningum Steves Reeves þó svo að auðvitað séu til margir stígar að einu og sama markmiðinu, þjálfunar- og næringarfræði engar undantekningar þar. Því meira sem rýnt er í málin má sjá að ólíkar leiðir henta mismunandi fólki en allar eiga þær þó eitt sameiginlegt: Árangur er bein afleiðing gjörða okkar, við uppskerum eins og við sáum.

Ástæða þess að ég endurorðaði máltækið gamalreynda var sú að ég vildi tengja nafnorðið árangur við sögnina að gera. Ég get ekki beðið aðra að æfa fyrir mig, ég þarf að gera það sjálfur. Í stuttu máli sagt þá snaraukast líkurnar á árangri ef leiðbeiningum Steves er fylgt eftir, að ég tali nú ekki um í samanburði við að lesa um þær og láta þar við sitja.

Ítarefni:
Góð yfirlitsgrein frá Mike Mahler
Heimasíða Steves Reeves heitins
Grein um Steve Reeves á wikipediu

miðvikudagur, október 10, 2007

Hvatning



Hér er á ferðinni hvatningarræða frá Al Pacino úr myndinni Any Given Sunday. Myndina hef ég ekki séð, ætla að bæta úr því, en ræðuna hef ég hlustað á nokkrum sinnum og alltaf veitir hún mér aukakraft til að halda áfram að gera það sem þarf til að ná markmiðum mínum.

Hvatning er hverri manneskju nauðsynleg og það sem Al Pacino segir, og hvernig hann segir það, virkar. Ræðuna má auðveldlega heimfæra á einstaklinga og önnur markmið óskyld amerískum fótbolta. Hluti af starfi einkaþjálfara er einmitt að hvetja fólk áfram og ef einhvern langar í aukainnblástur til að gera betur í dag en í gær þá er ræðan Pacinos málið.

mánudagur, október 08, 2007

Algerir byrjendur: Sund

Sund er bæði skemmtileg og góð alhliða líkamsþjálfun sem auðvelt er að stunda, enda nóg af sundlaugum á Íslandi. Sundiðkun krefst ekki dýrs búnaðar og er hægt að fá góð sundgleraugu og sundhettur í flestum íþróttaverslunum, mæli líka með að fólk fái sér sundbol eða -skýlu. Seinna meir má bæta við útbúnaði eins og froskalöppum, en þær gera manni kleift að komast mun hraðar yfir (mikið stuð).

Flestir sem ég sé í laugunum nota bringusundið en þó eru skriðsundsiðkendur þar í bland. Flugsund og bakskriðsund sé ég mun sjaldnar og er það helst ef sundæfingar keppnisfólks eru í gangi. Vart þarf að minnast á þau lífsgæði sem fólgin eru í því að vera einn með sjálfum sér og heyra ekkert nema vatnsgjálfur og eigin andardrátt, eins konar hugleiðsla og þar af leiðandi hentar sundið nútímafólki sérdeilis vel.

Til þess að gera sundástundun að raunverulegri líkamsrækt og uppskera einhvern ávinning er nauðsynlegt að stunda æfingar reglulega, t.d. er margfalt betra að synda 1000 metra þrisvar í viku en að böðla sér í gegnum 5000 metra einu sinni í viku. Vegalengdin segir þó ekki alla söguna því 200 metra flugsund er flestum umtalsvert erfiðara, ef ekki ómögulegt, en 200 metra bringusund og ekki er sama hvort synt sé hratt eða hægt.

Góð leið til að fylgjast með árangri er að taka tímann á hve lengi maður er að synda t.d. 500 metra eða hve langt maður kemst á föstum tíma t.d. 12 mínútum. Heppilegt er að gera slíka mælingu mánaðarlega. Að fylgjast með árangrinum gerir þjálfunina markvissari auk þess sem upplýsingar úr slíkum athugunum eru bæði gagnlegar og oft skemmtilegar.

Í þessu sýnisprógramm nota ég bæði bringu- og skriðsund og geng út frá að bringusundið sé sá sundstíll sem reynist léttari. Áætlunin miðast við fjórar vikur og að fjórum vikum loknum má endurtaka leikinn með breyttum áherslum miðað við aukna hreysti. Allar æfingarnar eru hannaðar miðað við þrjú skipti í viku og henta vel samhliða styrktarþjálfun af einhverju tagi.

Fyrsta vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
200 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
200 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 800 metrar

Önnur vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
300 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1000 metrar

Þriðja vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
400 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
100 metra bringusund, tvö handatök fyrir hvert fótatak
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1200 metrar

Fjórða vika
300 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
400 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
4 x 50 sprettir með sundaðferð að eigin vali. Eftir hvern sprett skal hvílt í 20-30 sekúndur
300 metra bringusund, tvö handatök fyrir hvert fótatak
300 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1800 metrar

Hafirðu áhuga á að gera meiri alvöru úr sundiðkuninni eru sundfélög starfrækt út um allt land. Mörg þeirra bjóða upp á æfingar fyrir þá sem ekki eru lengur gjaldgengir á ungmennafélagsmót, æfingar í garpaflokki fyrir bæði karla og konur. Skorti þig færni í einhverri af sundaðferðunum fjórum eða langar til að læra nýja er kjörið að skella sér á fullorðinssundnámskeið, aldrei of seint að byrja. Þessi námskeið eru gjarnan auglýst í afgreiðslu sundlauga. Góða skemmtun!

Að lokum er stutt grein með ýmsum ábendingum fyrir byrjendur sem kunna að synda en vilja bæta tæknina.

laugardagur, október 06, 2007

Viðtal við Ori Hofmekler



Í þessu myndskeiði kynnir höfundurinn Ori Hofmekler nýjustu bók sína: The Anti-Estrogenic Diet. Ég hef ekki lesið hana en viðurkenni að ég hlakka mjög til að hakka hana í mig.

Ég kynntist verkum Oris Hofmeklers vorið 2006 þegar ég las bók hans The Warrior Diet. Áður hafði ég kynnt mér grundvallaratriðin í þeim lífsstíl sem hann leggur til í bókinni og þótti þau vægast sagt athyglisverð. Það sem sérstaklega vakti athygli mína var að þarna voru á ferðinni kenningar sem pössuðu ekki að neinu leyti við megnið af því sem heilsuspekúlantar nútímans predika. Þrátt fyrir góðan rökstuðning var ég enn svolítið efins en vitanlega forvitinn.

Þegar þannig er komið fyrir mér geri ég venjulega tilraun á sjálfum mér og hef gert nokkrar slíkar í gegnum tíðina. Tilraunir af þessu tagi geri ég þannig að ég fylgi fræðunum staf fyrir staf, fylgist grannt með því sem ég borða og hvernig mér líður frá degi til dags. Auk þess held ég nákvæma æfingadagbók svo ég sjái svart á hvítu hvort tilraunin bitni á eða bæti styrk og þol.

Að fjórum vikum loknum komst ég að því að lífsstíllinn hentaði mér ansi vel, styrkur og þol jukust ef eitthvað var, mér leið mjög vel og ekki spillti að fituprósentan hafði lækkað. Í staðinn fyrir að hætta eftir fjórar vikur hélt ég áfram og hef nú lifað þessum lífsstíl meira og minna síðan í júníbyrjun 2006. Margir urðu forvitnir og spurðu hvort ég væri ekki orkulaus á svona mataræði en sannleikurinn var sá að ég var orkumeiri en áður og ekki háður blóðsykursveiflum daginn út og inn eins og t.d. vinnufélagar mínir á þeim tíma.

Af einskærum áhuga og eðlislægri forvitni um hvað ætti sér stað í líkamanaum las ég aðra bók eftir kauða, Maximum Muscle - Minimum Fat, og hafði ákaflega gaman af. Þarna eru á ferðinni sömu grundvallarprinsipp en með mun vísindalegri nálgun, enn meiri rökstuðningi og ekki víst að almenningur hafi jafngaman af slíkri lesningu. Bókina myndi ég hins vegar kalla nauðsynlegt ítarefni fyrir þá sem vilja hin raunverulegu fræði á bak við warrior kenninguna og hafa einhvern skilning eða áhuga á líffræði.

Til að gefa ykkur smáhugmynd um hvað kenningar Oris ganga út á þá er einn af rauðu þráðunum t.d. að neyta matvæla sem laus eru við skordýraeitur og niðurbrotsefni hormóna- og sýklalyfja, semsagt lífrænna matvæla og færir hann mörg góð og gild rök fyrir því. Aðalþráðurinn er þó tímasetning máltíðanna, að fasta yfir daginn og borða stóran kvöldverð. Þannig að tuttugu tíma fastar maður og hefur svo fjóra tíma til að fullnægja næringarþörf líkamans.

Tuttugu tíma fasta kann að hljóma sem erfið hugmynd og fyrir þá sem finnst það er hughreystandi að átta tímum af þessum tuttugu er varið í svefn. Annar þáttur sem gerir þetta auðveldara en ella er að fastan gengur fyrst og fremst út á að afeitra líkamann og er því frábært að notast við nýpressaða grænmetis- og ávaxtasafa, grænmetissoð eða einfaldlega ávexti og grænmeti eins og þau koma fyrir í náttúrunni. Einnig er tedrykkja er af hinu góða í föstuferlinu.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér grunnhugmyndirnar betur áður en farið er út í lestur bóka eða tilraunir með nýjan lífsstíl eru hér nokkrir tenglar:

Upplýsingar á heimasíðu Warrior Diet
Viðtal á bodybuilding.com
Stutt samantekt frá öðrum sem gerði tilraun á sjálfum sér :)

föstudagur, október 05, 2007

What makes us eat?

Fékk sendan tengil á skemmtilega myndasyrpu, endilega kíkið, sem ber heitið What makes us eat? Um er að ræða samspil mynda og texta og eru talin upp nokkur atriði sem hafa ótrúlega mikið að segja um hvað fólk borðar og hvenær.

Segið svo að umhverfið hafi ekki áhrif á hegðun okkar. Alltaf finnst mér jafngaman að fá staðfest hvað mannskepnan er einföld þrátt fyrir ótalmargar tilraunir okkar til að sýna fram á annað. Góð matarlykt hefur t.d. alveg nákvæmlega sömu áhrif á okkur og Plútó sem sveif á ilminum í Walt Disney teiknimyndunum.

fimmtudagur, október 04, 2007

How to get fat without really trying



Hvað get ég sagt? Mér þótti margt af því sem fram kom ansi óhugnanlegt en var þó ekki hissa. Vissulega er myndin bandarísk og sömu sögu má segja um öll dæmi sem tekin eru fyrir í henni. Mér er samt lífsins ómögulegt að líta framhjá því að Íslendingar hafa um nokkurt skeið stefnt hröðum skrefum á eftir Könunum. Upplýsingarnar ættu því að vera okkur víti til varnaðar og hvatning til að grípa í taumana áður en vandamálið verður okkur ofviða.

Í myndinni er nefnt að ekki sé endalaust hægt að leita á náðir æfinga til að brenna öllum umframhitaeiningunum og er ég því sammála, í mörgum tilfellum er magnið einfaldlega of mikið. Einnig tel ég að slíkt viðhorf, að æfa til að geta etið meira, sé ákaflega óheilbrigt og skapi neikvætt samband milli einstaklings og æfinga, ekki vænlegt til árangurs. Heilbrigður lífsstíll er heilsteypt fyrirbæri þar sem bæði hreyfing og matarræði vinna saman og til að það sé hægt þarf hugurinn að fylgja með, t.d. þýðir lítið að fara út að hlaupa og hugsa allan tímann um frönsku kartöflurnar sem maður geti nú borðað, hljómar hreinlega úrkynjað.

Sömu sögu má segja um samband okkar við mat og er allt of mörgum börnum kennt á unga aldri að óhollur matur sé góður en hollur sé vondur. Þessu er auðvelt að snúa við en til þess þarf samstöðu, fordæmi og eftirfylgni, og er það von mín að íslenskir foreldrar sjái þann óleik sem þeir gera börnum með því að gefa þeim sykur, litar- og rotvarnarefni í tíma og ótíma (frostpinna, ís, gos, hlaup, sykrað morgunkorn, sykraða mjólkurvöru...). Nammidagar þurfa ekki að snúast um óhollan mat sem skapar skammvinna ánægju en í heildina litið fátt annað en vanlíðan. Notið ímyndunaraflið, hvað varð t.d. af þurrkuðum ávöxtum og hnetum?

Við matarinnkaup held ég mig við heilsusamlega vöru og tek ég því lítið eftir því sem á sér stað í snakk- og gosdeildunum. Eftir að hafa horft á myndina heimsótti ég nokkrar verslanir mér til skemmtunar og flokkaði matvöru sem nothæfa og ónothæfa og komst að því að ruslfæði sligar hillur og vörubretti í mun meira magni en fólk grunar. Ég hvet lesendur til að gera það sama í næstu búðarferð og sjá þetta með eigin augum.

Skilgreiningarnar á nothæfri og ónothæfri matvöru voru einfaldar og þess eðlis að auðvelt væri að sjá hvorum flokknum matvara tilheyrði. Vörur sem innihéldu sykur eða sætuefni, rotvarnarefni, herta fitu, msg, mikið salt eða ger, hvítt hveiti, tilbúin litar- og bragðefni og fleira í þessum dúr kallaði ég blákalt ónothæfar. Nothæfu vörurnar voru lausar við allt ofantalið og var þumalputtareglan að varan skyldi vera einföld og lítið unnin.

Eitt sem mér þótti myndin koma sérstaklega vel á framfæri var raunveruleg ábyrgð heilbrigðisyfirvalda til að koma í veg fyrir þróun eins og þá sem varð til þess að 2/3 hlutar Bandaríkjamanna eru of þungir. Auðvitað ber hver og einn ábyrgð á sínu lífi en þó fyndist manni betra að vita af yfirvöldum sem legðu sig fram við að stuðla að heilbrigðum lífsstíl frekar en að finna leiðir til að troða sem mestum mat ofan í fólk í þágu gallaðrar landbúnaðarstefnu. Þekki þetta ekki hér heima en tel gagnlegt að vera á verði.

Samanburðurinn við reykingar var, að mínu mati, sú tuska sem allir þurfa að fá í andlitið því í raun eru vandamálin ansi lík. Fyrir nokkrum árum talaði reykingafólk um það sem skerðingu á einstaklingsfrelsi þegar reykingabann á t.d. veitingahúsum var nefnt og má vera að það sama beri upp í þessu samhengi og sjálfsagt finnst mörgum of djúpt í árinni tekið að líkja vandamálunum saman. Hvað finnst ykkur?

miðvikudagur, október 03, 2007

Leiðinlegt að æfa?

Hér kemur grein sem ég skrifaði þann 28. apríl árið 2006. Ég set hana nú því enn hitti ég fyrir fólk sem talar um að helsta hindrun þeirra við að stunda hreyfingu sé sú að því þyki það einfaldlega leiðinlegt! Hér kemur greinin:

Oftsinnis hefur fólk komið að máli við mig og sagt að því finnist leiðinlegt að æfa. Yfirleitt heldur það áfram og segist oft hafa keypt sér kort í líkamsræktarstöð en aldrei haldið sig við það vegna leiðinda og áhugaleysis. Bíðum við!

Ef við setjum þetta upp í einhvers konar rökhugsun þá er auðvelt að sjá að æfingar eru risastórt mengi sem inniheldur nánast endalausa möguleika og að líkamsræktarstöðvar eru aðeins lítið mengi inní því. Þá vakna hjá mér spurningar.

  • Er mögulegt að öflug markaðssetning líkamsræktarstöðva hafi einfaldlega skaðað ímyndunarafl almennings?
  • Fer fólk kannski bara á stöðvarnar afþví að allir hinir gera það?
  • Er þetta kannski bara afsökun til að fresta vandamálinu?
Ég tel að sitt lítið af hverju sé hér á ferðinni. Tökum dæmi af Jóni sem hefur undanfarin þrjú ár keypt sér árskort hjá flottri líkamsræktarstöð, mætt í mánuð og hætt. Nú er hann 15 kg þyngri en þegar hann keypti fyrsta kortið og er að fara að kaupa það fjórða og hugsar með sér: Þetta verður öðruvísi núna.

Kannski tekst það hjá honum, kannski verður það öðruvísi núna. Sennilegast er þó að hann mæti í mánuð og hætti svo, kaupi sér kók og snickers og horfi á aðra stunda íþróttir í sjónvarpinu. Fyrir hann Jón vin okkar væri sennilega best að byrja á einhverju einföldu sem t.d. væri hægt að vera í hóp.

Út um allt land er hægt að komast á garpasundæfingar, skokkhópa, gönguhópa og fleira. Ef ekkert af þessu tagi er starfrækt í nágrenninu er hægt að fara með einhverjum vini sínum og kannski stofna tveggja manna hóp og sjá hvort hann vaxi ekki.

Það þarf ekki að gjörbylta öllu í hvunndeginum til þess að uppskera einhvern ávinning. Aðalatriðið er að finna eitthvað sem manni þykir skemmtilegt eða sem maður finnur næga vellíðan af til að nenna aftur. Hér koma nokkrar hugmyndir fyrir þá sem ekki fíla líkamsræktarstöðvar:

  • Sund
  • Gera gólfæfingar á borð við armbeygjur, magabeygjur, bakfettur...
  • Göngutúrar
  • Kraftganga
  • Skokk
  • Jóga
  • Pilates
  • Hjólreiðar
Listinn gæti vissulega verið lengri en hér læt ég staðar numið. Það sem var talið upp á það allt sameiginlegt að hægt er að stunda þetta hvar sem er og hvenær sem er með litlum eða engum tilkostnaði. Því er það ekki nein afsökun að finnast leiðinlegt að lyfta lóðum eða fara í þolfimitíma.