miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Andinn og efnið

Það þarf víst ekki að fjölyrða eða útskýra í smáatriðum að andinn og efnið hafa í flestum tilfellum mikil áhrif hvort á annað. Þó finnst mér liggja í augum uppi að andinn sé stærri breyta þar sem efnið er í eðli sínu óvaranlegt.

Sjálfur geri ég ýmislegt til þess að hafa góð áhrif á andann og þykir það jafnan skila sér í betri líkamlegri líðan. Oftar en ekki er þetta eitthvað eins og að fara í göngutúr en gera það með því markmiði að láta mér líða vel, njóta útsýnis og fersks lofts. Sé maður í vondu skapi eða taugastrekktur getur t.d. verið sérlega gott að einbeita sér að því að ganga rólega og anda djúpt. Þetta krefst vissulega einbeitingar því eðlileg viðbrögð eru jú að storma áfram.

En ekki þarf endilega að fara neitt til að hafa áhrif á andann. Oft er gott að hlusta á fallega tónlist eða einfaldlega slaka á með því að fylgjast með andardrættinum, smáfuglum eða bara bílum. Slaka aðeins á. Aðalakosturinn er að þetta má gera hvar sem er og ekki þarf að fara eitt eða neitt.

Til að sýna fram á neikvæð áhrif andans á efnið má nefna andlega streitu. Magasýrur, meltingartruflanir, lítil matarlyst, örari hjartsláttur og svo spinnst einhver hringavitleysa af stað, sérstaklega ef ástandið er langvarandi. Er þá ekki betra að gera eins og pabbi minn kenndi mér þegar ég var lítill? Að anda með nefinu og telja upp á tíu :)

Í þessari grein má lesa um heilsufarslegan ávinning hugleiðslu og slökunar og hér má hlusta á frábæra tónlist.