fimmtudagur, mars 29, 2012

Raw Iron

Ekki eins þekkt og hin ágæta Pumping Iron, myndin sem ég setti út um daginn. Hér er farið á bakvið tjöldin og í saumana á senunni úr Pumping Iron. Ég sá þessa mynd í fyrsta sinn nú fyrir stuttu og þótti gaman og eiginlega bara nauðsynlegt að fá lausa enda úr Pumping Iron á hreint, eins og t.d. hve mikið af þeirri mynd er heimild og hve mikið er krydd til að gera hana áhugaverða. Samkvæmt þessu var hún bara nokkuð spicy :)

Í Raw Iron eru kempurnar úr Pumping Iron einnig heimsóttar á 25 ára útgáfuafmæli þeirrar síðarnefndu og tekin viðtöl. Slá menn á létta strengi en svara líka alvarlegri spurningum eins og t.d. um steranotkun. Algerlega ómissandi fyrir áhugafólk um vaxtarrækt og hreystimenni ýmiss konar.

mánudagur, mars 26, 2012

Mánudagskaffið

Mikið hefur maður heyrt um að kaffi sé óhollt og er því jafnvel líkt við fúlasta eitur. Má vel vera að eitthvað sé til í því upp að einhverju marki þar sem kaffi er jú þvagræsandi og sé neysla á öðrum vökva lítil getur það leitt til vökvaskorts. Fleiri neikvæðar hliðarverkanir eru svo sem þekktar eins og minni gæði á svefni og svo framvegis.

Í þessum pistli langar mig hins vegar að beina sjónum að því jákvæða. Það er svo gott að vera jákvæður, eykur lífsgæði. Langtímarannsóknir hafa sýnt að áhrif kaffis á blóðþrýsting hafa verið ofmetin en þetta hefur valdið mörgum áhyggjum. Hins vegar er alveg ábyggilegt að langtímaáhyggjur valda háum blóðþrýstingi.



Það sem mér þótti merkilegast þegar ég fór að kafa í kaffibollann var að rannsóknir benda til þess að kaffið getir reynst hjálplegt í baráttu við sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki, Parkinsons-veiki og Alzheimer. Krabbameinin sem kaffið var talið minnka líkur á voru: Brjósta-, blöðruhálskirtils- og ristilkrabbamein. Það eru nefnilega andoxunarefni og pólífenólar í kaffi. Finnst mér vert að nefna það hér að hið svokallaða púðakaffi hefur af einhverjum ástæðum lítið af þessum jákvæðu eiginleikum og tíu sinnum meira af neikvæðu eiginleikunum.

Ég tek fram að þrátt fyrir þessa jákvæðu umfjöllun mæli ég ekki með því að fólk fari að þamba kaffi í miklu magni. Allt er gott í hófi og hvet ég lesendur til að einbeita sér að gæðunum og njóta þess að drekka almennilegt, gott kaffi.

miðvikudagur, mars 21, 2012

Pumping Iron

Hér er á ferðinni myndin sem dró vaxtarræktina inn í sviðsljósið og kom henni inn á kortið fyrir almenning. Þessi mynd hefur haft mikil áhrif á mig og marga aðra, ég horfi reglulega á hana mér til upplyftingar og innblásturs fyrir utan hvað þarna er á ferðinni skemmtileg heimild um það sem margir kalla gullöld vaxtarræktarinnar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð og læt myndina tala sínu máli.



Vilji fólk eignast afmælisútgáfuna í fullum gæðum fæst hún hér fyrir sama og ekki neitt: