miðvikudagur, október 19, 2011

Linsubaunir

Linsubaunir hafa fylgt mannkyni um þúsundir ára og ekki að ástæðulausu. Þær eru nefnilega bragðgóðar, bráðhollar og svo er alveg sérstaklega auðvelt að matreiða þær og bæta þeim út í næstum því hvað sem er. Það tekur yfirleitt ekki nema 20-30 mínútur að sjóða linsubaunir og það þarf ekki að leggja þær í bleyti fyrir suðu.

Í linsubaunum má finna mikið magnesíum en það er mikilvægt steinefni þegar kemur að heilsu hjarta- og æðakerfis. Rannsóknir benda einmitt til þess að magnesíumskortur sé einn af undanförum hjartaáfalla. Magnesíum gegnir einnig mikilvægu hlutverki við að halda beinunum sterkum þar sem það hjálpar líkamanum að nýta kalk úr fæðu.

Linsubaunir eru próteinríkar og til að nýta próteinið betur, bæta inn þeim amínósýrum sem upp á vantar, er kjörið að borða þær með hýðisgrjónum. Ætti að vera auðvelt þar sem hýðisgrjón og linsubaunapottréttur fara alveg sérstaklega vel saman. Sé úthugsuð samsetning eins og þessi notuð uppfyllir próteinið þau skilyrði að kallast "heilt".

Í linsubaunum má einnig finna gnótt B vítamína, járn og afbragðstrefjar. Með öðrum orðum hjálpa þær okkur með orkubúskapinn, blóðið og meltinguna. Öll þessi næring og samt svo fáar hitaeiningar, í einum bolla (sem er ansi saðsamur) af soðnum linsum eru aðeins 230 hitaeiningar. Við erum semsé með andstæðu þess sem kallað er "tómar hitaeiningar". Tómar hitaeiningar eru hitaeiningar sem gefa bara orku en ekkert af þeim vítamínum eða steinefnum sem þarf til að vinna orkuna úr fæðunni.

Ef einhvern langar að prófa sérstakar linsubaunauppskriftir þá eru nokkrar áhugaverðar hér. Einnig er kjörið að henda eins og hálfum til einum bolla af soðnum linsum út í pastasósu eða í grænmetissúpur og prófa sig áfram með frumlegum tilraununm :)