þriðjudagur, september 25, 2007

Kornmeti

Það kemur svosem ekki á óvart að heyra að lítið eða ekkert unnið kornmeti sé hollara en unnið kornmeti eins og t.d. hvítt hveiti. Orðið heilkorn segir allt sem segja þarf, í því er öll sú hollusta sem kornmeti hefur upp á að bjóða og þeirri hollustu fylgja jákvæð áhrif á lífsgæði t.d. umtalsvert minni líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Efnisflokkurinn hefur verið þaulrannsakaður á undanförnum áratugum og bendir allt til að þrátt fyrir það fullnægi allt of fáir þörfinni fyrir heilkorn. Í staðinn treður fólk sig út af ónothæfum mat eins og hvítu hveiti og óteljandi morgunmatartegundum sem allt of margar samanstanda, hreint út sagt, af rusli.

Dæmi um mat sem uppfyllir kröfur þeirra sem langar til að snúa þessu við er m.a.
gróft haframjöl (tröllahafrar), hýðishrísgrjón, bygg, heilhveiti og meira að segja poppkorn. Ég mæli þó ekki með öfganeyslu á poppi þar sem það er yfirleitt borið fram með bæði mikilli fitu og salti. Hljómi þetta of flókið má alltaf nota þá þumalputtareglu að því færri sem vinnslustig matarins eru, áður en hann kemur til neytanda, því betra.

Langi þig að lesa meira bendi ég á þessa grein. Ef þú hefur áhuga á að vita hvað fólk um víða veröld lætur ofan í sig, bendi ég á þessa frábæru ljósmyndasyrpu.

Þess ber þó að geta að kornmeti og kornmeti er ekki endilega eitt og hið sama. Lífrænt ræktuð hýðisgrjón eru t.d. margfalt betri kostur en þau sem sprautuð hafa verið með skordýraeitri eða viðbjóði sem ekki kemur fram á merkingum. Einnig ber að hafa hugfast að hverja tegund fyrir sig þarf að elda eftir kúnstarinnar reglum, t.d. leggja í bleyti, ef njóta á raunverulegs heilsufarsávinnings. Verið væn við kornið og kornið mun vera ykkur vænt er lauslega þýddur titill áhugaverðrar greinar sem ég rakst á nýverið. Njótið HEIL!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæhæ skemmtilegt og gott framtak, gott að vita þetta."keep up the good work".Sjáumst kveðja Júlían

Unknown sagði...

Gaman að sjá að þú sért farinn að huga að heilsunni aftur :-)

Ein spurning varðandi haframjölið (ég er sko aðdáandi hafragrauts númer eitt): Eru tröllahafrar sumsé óvalsað haframjöl? Ég kaupi yfirleitt ökólógískt haframjöl sem ekki er mjög fínlegt, frekar grófvalsað.

baldur sagði...

Takk fyrir undirtektir og gaman að fá spurningu.

Tröllahafrar eru það sem á ensku kallast steel cut oats og eru það heilir, óvalsaðir hafrar sem hafa yfirleitt verið skornir í u.þ.b. þrjá hluta.

Eðlilega tekur lengri tíma að undirbúa graut úr slíkum höfrum og er best að leggja í bleyti að kveldi.

Fljótleg aðferð er að sjóða fjóra hluta af vatni, hella einum hluta af tröllahöfrum útí og hræra þangað til hafrarnir hafa drukkið í sig mesta vatnið.

Þvínæst er slökkt undir, lokið sett á pottinn og allt saman látið liggja um nóttina. Um morguninn kveikirðu aftur undir pottinum og eldar þartil upp kemur suða eða þartil hafrarnir eru eins og þú vilt hafa þá.

Ég hef ekki prófað þetta sjálfur en fann upplýsingarnar á eftirfarandi síðu:
http://www.mccanns.ie/pages/preparation.html

Hér er að finna stuttar skilgreiningar og myndir af mismunandi hafrategundum:
http://www.foodsubs.com/GrainOats.html

Grófvalsað haframjöl er mun fljótlegra í notkun en tröllahafrarnir og er afburðafæða, einkum og sérílagi þegar það er lífrænt. Hvort tveggja er gott og gæti verið skemmtilegt að breyta til annað slagið.

Nafnlaus sagði...

En hvaða efni tapast frá tröllahöfrum til grófvalsaðra eða fínvalsaðra? Nú virðist ekki vera munur á næringarinnihaldi og því er mér spurn hversvegna er eitt hollara en hitt?

Hin spurningin er: Kann eitthvað að vera svo tormelt að það gæti hreinlega stíflað meltingarveginn(mætvæli vitanlega)? Ef að unnar vörur eru meltanlegri, þá er það augljóst að minna unnin matvæli eru tormeltanlegri, afhverju er það hollara?

Unknown sagði...

Takk fyrir fróðleikinn um hafrana! Ég held ég haldi mig við völsuðu (old-fashioned) hafrana en prófa kannski tröllahafrana við tækifæri.

Helsti kostur hafragrauts finnst mér nefnilega vera hversu skamman tíma tekur að elda hann og þess vegna finnst mér ekki heillandi tilhugsun að hugsa um grautinn kvöldið áður en ég ætla að borða hann :-)

baldur sagði...

Mér var sannarlega ánægja að koma upplýsingunum á framfæri og er ákaflega ánægður með undirtektirnar sem bloggið hefur fengið síðustu daga.

Til að svara fyrirspurnum nafnlauss, sem mig rennir nú í grun um hver sé, bendi ég á að hafrar eru almennt holl fæða og sennilega betra að borða þá fínvalsaða en ekki.

Munurinn á þeim fínvölsuðu og grófvölsuðu felst í meginatriðum í meira trefjainnihaldi en flest bendir til að fólk fái almennt ekki nóg af þeim úr fæðu sinni.

Einnig er það rétt hjá nafnlausum að óunnin vara á borð við tröllahafra geti verið tormeltari en t.d. valsaðir og er það einmitt þess vegna sem ég benti á greinina um að við ættum að vera væn við kornið.

Í stuttu máli þarf að læra að umgangast slík matvæli rétt til að uppskera fullan næringarfræðilegan ávinning af neyslu þeirra.

Einnig varpaði nafnlaus þeirri spurningu hví minna unnið væri hollara og svara ég því í samhengi við hafrana. Málið er að sú völsunaraðferð sem yfirleitt er notuð (eftir því sem ég best veit) er svokölluð heitvölsun. Það er rökrétt því það gerir hafrana meðfærilegri og vinnsluferlið því styttra. Óhjákvæmilega tapast næringarefni í ferlinu en ég bið lesendur þó ekki að taka því sem svo að valsaðir hafrar séu næringarsnautt rusl, síður en svo.

Þegar allt kemur til alls snýst þetta að miklu leyti um þarfir hvers og eins en þó mun ég sitja fastur við minn keip og mæla með annaðhvort lífrænt ræktuðum grófvölsuðum eða tröllahöfrum.

Roger, over and out.

baldur sagði...

Fyrir þá sem hafa áhuga á ferlinu þá fann ég einfalda lýsingu á því á sömu síðu og notkunarleiðbeiningarnar fyrir tröllahafrana.