þriðjudagur, október 28, 2008

Heilsa

Oft þegar talað er um heilsu er andleg heilsa skilin útundan. Það er þó af og frá að skilja hana undan því í andanum er jú lykillinn að kraftinum til að gera nokkurn skapaðan hlut. Rétt eins og þegar kemur að leikfimi er hægt að feta margan slóðann til að bæta andlega heilsu.

Ein aðferðin er að lesa eitthvað sem veitir innblástur, þetta gæti t.d. verið vel skrifuð skáldsaga eða bíómynd. Önnur aðferðin er að slaka meðvitað á með aðstoð tónlistar, öndunaræfinga eða einfaldlega rólegri gönguferð úti í náttúrunni. Jákvætt og uppbyggilegt sjálfstal er frábært atriði á þennan lista en það er mikið notað og með góðum árangri. Meðal þeirra sem nota jákvætt sjálfstal eru afreksíþróttamenn.

Hugleiðsla er svo enn eitt verkfærið og geysiöflugt. Margar leiðir eru í boði og um að gera að kynna sér málið. Óháð því hvaða aðferð er notuð er mikilvægt að ástunda hana jafnt og þétt svo ávinningurinn verði einhver.

miðvikudagur, október 15, 2008

Morgungrautur Gabríels

Grautur þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér. Uppskriftina er að finna utan á bankabyggi frá Móður Jörð. Það er snilld að setja þetta í gang á kvöldin og ganga svo að þessu sem vísu að morgni. Svona hljóðar uppskriftin:

3 dl bankabygg, 9 dl vatn, 2 epli skorin í litla teninga, 1-2 dl rúsínur, 1 msk kanill, 2 tsk salt, 1-2 dl fræ eftir smekk, t.d. sólblómafræ og/eða graskersfræ. (+2 tsk hungang og 1 dl döðlur fyrir sælkera)

Öllu þessu er dúndrað í pott, soðið í u.þ.b. fimm mínútur, síðan slökkt undir, lokið sett á pottinn og farið að sofa (eða í vinnuna eða eitthvað).

Ég borða grautinn yfirleitt kaldan (en vitanlega má hita hann upp líka) og nota þá möndlumjólkina úr færslunni á undan útá. Grauturinn er góður nokkra daga í röð og geymist vel í kæli.