miðvikudagur, október 15, 2008

Morgungrautur Gabríels

Grautur þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér. Uppskriftina er að finna utan á bankabyggi frá Móður Jörð. Það er snilld að setja þetta í gang á kvöldin og ganga svo að þessu sem vísu að morgni. Svona hljóðar uppskriftin:

3 dl bankabygg, 9 dl vatn, 2 epli skorin í litla teninga, 1-2 dl rúsínur, 1 msk kanill, 2 tsk salt, 1-2 dl fræ eftir smekk, t.d. sólblómafræ og/eða graskersfræ. (+2 tsk hungang og 1 dl döðlur fyrir sælkera)

Öllu þessu er dúndrað í pott, soðið í u.þ.b. fimm mínútur, síðan slökkt undir, lokið sett á pottinn og farið að sofa (eða í vinnuna eða eitthvað).

Ég borða grautinn yfirleitt kaldan (en vitanlega má hita hann upp líka) og nota þá möndlumjólkina úr færslunni á undan útá. Grauturinn er góður nokkra daga í röð og geymist vel í kæli.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Gabríel er erkiengill! Áhugaverð uppskrift sem ljáir manni vængi.

Nafnlaus sagði...

Ég hef séð á svo mörgum stöðum að hann geymist í nokkra daga í röð. En veit einhver hve marga daga? Nokkrir eru frekar teygjanlegt hugtak.

baldur sagði...

Þar sem mér líkar grauturinn vel klárast hann nú alla jafna hratt. Hins vegar hefur hann staðið í ísskápnum í þrjá daga í lokuðu boxi og ekki borið neinn skaða af því.