Þessa grein skrifað ég þann 29. mars árið 2002 og finnst full ástæða til að birta hana aftur þar sem hennar er enn þörf. Gjörið svo vel:
Hvað er gott form? Er gott form að geta sýnt magavöðvana? Er gott form að geta hlaupið tíu kílómetra í einu? Er gott form að lyfta hundrað kílóum í bekkpressu? Svarið við fyrstu spurningunni er nei. Svarið við annarri og þriðju spurningu er afstætt. Til er fólk sem lyftir þungum lóðum eins og ekkert sé en getur svo ekki gengið hálfan kílómetra án þess að pústa. Svo eru þeir sem geta gengið endalaust en engu lyft. Mér finnst það liggja beint við að sitt lítið af hverju er sniðugt í þessum efnum og ef æfingarnar eru fjölbreyttar þá hlýtur líkaminn að verða fjölhæfari. Ef fólk gerir ekkert til að auka þol þá eykst þolið einfaldlega ekki, líklegra er að það minnki. Það sama gildir um sprengikraftinn.
Sjálfsagt eru margir orðnir ringlaðir og sjá fyrir sér endalausar þolfimiæfingar og marga tíma í lyftingasal fyrir utan stór fjárútlát í æfingastöðvar og fæðubótarefni. Sleppið fæðubótarefnum, þau eru að jafnaði rusl. Já, já einhver rannsókn benti til þess að blablabla. Hverjir fjármagna rannsóknirnar? Hvaða aðferð var notuð? Lásuð þið skýrsluna eða var bara einhver sem kastaði þessu fram? Jæja en segjum nú sem svo að rannsóknin sé góð og gild og niðurstöðurnar dagsannar. Hafa matvæli versnað eitthvað síðustu árþúsundin? Er mjólk og skyr eitthvað öðruvísi en fyrir fimmtíu árum? Neineinei. Hluti af því að vera heilbrigður er að borða hollan, góðan og fjölbreyttan mat.
Það er hægt að hreyfa sig á fleiri stöðum en á æfingastöðvum. Við erum vel flest með tvær hendur og tvo fætur og kunnum ansi mörg að ganga. Armbeygjur nútímans eru ekki verri en armbeygjur voru fyrir 500 árum. Teygjuæfingar er hægt að gera hvar sem er. Það er engin ein aðferð til æfinga réttari en önnur og það er ákaflega misjafnt hvað hentar hverjum. Sumum finnst gott að synda 500 m meðan öðrum finnst gott að ganga 2 km. Enn betra væri að labba upp í sundlaug og synda 500 m og gera svo nokkrar armbeygjur inn í útiklefa, daginn eftir væri svo kjörið að hífa sig upp á stöng áður en maður stingur sér til sunds.
Eins og sjá má þá er það fjölbreytnin sem skiptir hvað mestu máli þegar talað er um gott form. Ég þekki meira að segja fólk sem notar garðrækt sem líkamsrækt með alveg hreint ákaflega góðum árangri og reynið ekki að telja mér trú um að æfingar geti ekki orðið að áhugamáli. Garðrækt og kajakróður hmmm, skíði og sund... Það má finna margar og skemmtilegar leiðir að fjölbreyttum og hollum lífsstíl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli