föstudagur, september 28, 2007
Sykurhólistar
Mér fannst viðeigandi, svona beint á eftir sætuefnunum, að tala aðeins um sykur. Jack LaLanne veit sko greinilega hvað hann syngur og jafnvel þó svo að myndbandið sé svarthvítt á það enn fullt erindi við nútíma-Íslendinga. Karlinn er nú ekki að skafa af hlutunum og er kærkomin hvíld í að vera laus við pólitíska rétthugsun og almenna meðvirkni nútímans, þar sem fólk læðist í kringum málefnin eins og köttur í kringum heitan graut. Sjálfur skil ég stundum ekkert hverju er verið að reyna að koma framfæri. Ímyndið ykkur bara ef læknar létu þannig. Læknirinn gæti sagt sjúklingi að hann sé að fá botnlangakast og þurfi skurðaðgerð strax eða hann gæti notað alls konar flækjur um meltingarvandamál og mögulegar hættur og sjúklingurinn dæi bókstaflega úr leiðindum áður en hann hefði hugmynd um að botnlanginn væri að springa.
Eins og þeir sem horfðu á myndbandið tóku sjálfsagt eftir er Jack ekki einhvers konar andkolvetnafanatík heldur er það fínunninn og einfaldur sykur sem hann mælir með að fólk sleppi. Miðað við tölur frá árinu 2000 eru Íslendingar Norðurlandameistarar í sykuráti með 53,3 kíló á hvern íbúa árlega. Deili maður þessu niður á 365 daga ársins eru það 146 grömm á dag, eða u.þ.b. þrefalt það magn sem mælt er með sem hámarksneyslu sykurs! Í hitaeiningum talið eru það 584 á dag, hrein orka (engin vítamín eða steinefni) eða eins og Jack orðaði svo vel: Tómar hitaeiningar. Hver vill þær? Ekki ég!
Þegar málin eru rædd í þessum tón spyrja margir hvað komi í staðinn. Að mínu mati þarf í raun ekkert að koma í staðinn fyrir viðbættan sykur þar sem hann er okkur ekki nauðsynlegur, hann er óþarfi. Margir kjósa að fara yfir í aspartamið en sjálfur mæli ég ekki með því þar sem það er engin lausn, við erum orðin allt of lin við okkur og fólk virðist halda að allur matur eigi að vera sætur. Það er til alls konar öðruvísi bragð sem líka er gott og þegar sykurneyslan hefur verið lítil eða engin í nokkurn tíma byrja oförvaðir bragðlaukar að njóta bragðsins af hollum mat. Sætur matur er þó ekki bannaður og er ég viss um að það geri öllum gott að fá uppáhaldsdesertinn sinn endrum og sinnum og finnst mér sjálfum skemmtilegt að gera svoleiðis til hátíðabrigða en óþarfi að hafa jól á hverjum degi, það er ekkert gaman.
Það er alls ekki svo vitlaust að tala um sykurhólisma því sykurinn hefur áhrif á sömu svæði í heilanum og vanabindandi vímuefni og er fólk misvel í stakk búið til að hemja slíkar nautnir. Eins og Jack nefnir í myndbandinu drekka sumir einn bjór annað slagið og lenda aldrei í vandræðum út frá því meðan alkóhólistar þurfa annan strax og svo annan og annan... Þetta er sama einkennið og fólk virðist alltaf þurfa MEIRA. Hér er áhugaverð grein á vef Lýðheilsustöðvar sem ég mæli með við þau ykkar sem þyrstir í ítarefni.
Í hverju er viðbættur sykur? Í flestum tilbúnum morgunmat (líka þeim sem sérstaklega eru markaðssettur sem megrunar- eða heilsuvara), mjólkurvöru, gosdrykkjum, sælgæti, sósum og svo mætti lengi telja. Sykurinn heitir ýmsum nöfnum en algeng eru t.d. glúkósi, frúktósi (ávaxtasykur) og gomma af alls kyns sírópum. Næst þegar þig langar í sælgæti er ágætt að staldra við og spyrja: Til hvers? Væri ekki betra að fá sér banana eða epli?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Ef einhver vill vita meira um hinn frábæra Jack LaLanne þá er góð samantekt í wikipediu.
Heldur betur við hæfi að setja hann á bloggið, átti 93 ára afmæli 26. september!
Ein besta tilvitnun sem ég hef heyrt frá heilsugúru kemur einmitt frá honum:
I cannot afford to die, it will ruin my image.
Maður á besta aldri, eflaust 18 ára í anda...
Það er greinilega nóg af orku á þessum bænum.
Skrifa ummæli