fimmtudagur, október 04, 2007

How to get fat without really trying



Hvað get ég sagt? Mér þótti margt af því sem fram kom ansi óhugnanlegt en var þó ekki hissa. Vissulega er myndin bandarísk og sömu sögu má segja um öll dæmi sem tekin eru fyrir í henni. Mér er samt lífsins ómögulegt að líta framhjá því að Íslendingar hafa um nokkurt skeið stefnt hröðum skrefum á eftir Könunum. Upplýsingarnar ættu því að vera okkur víti til varnaðar og hvatning til að grípa í taumana áður en vandamálið verður okkur ofviða.

Í myndinni er nefnt að ekki sé endalaust hægt að leita á náðir æfinga til að brenna öllum umframhitaeiningunum og er ég því sammála, í mörgum tilfellum er magnið einfaldlega of mikið. Einnig tel ég að slíkt viðhorf, að æfa til að geta etið meira, sé ákaflega óheilbrigt og skapi neikvætt samband milli einstaklings og æfinga, ekki vænlegt til árangurs. Heilbrigður lífsstíll er heilsteypt fyrirbæri þar sem bæði hreyfing og matarræði vinna saman og til að það sé hægt þarf hugurinn að fylgja með, t.d. þýðir lítið að fara út að hlaupa og hugsa allan tímann um frönsku kartöflurnar sem maður geti nú borðað, hljómar hreinlega úrkynjað.

Sömu sögu má segja um samband okkar við mat og er allt of mörgum börnum kennt á unga aldri að óhollur matur sé góður en hollur sé vondur. Þessu er auðvelt að snúa við en til þess þarf samstöðu, fordæmi og eftirfylgni, og er það von mín að íslenskir foreldrar sjái þann óleik sem þeir gera börnum með því að gefa þeim sykur, litar- og rotvarnarefni í tíma og ótíma (frostpinna, ís, gos, hlaup, sykrað morgunkorn, sykraða mjólkurvöru...). Nammidagar þurfa ekki að snúast um óhollan mat sem skapar skammvinna ánægju en í heildina litið fátt annað en vanlíðan. Notið ímyndunaraflið, hvað varð t.d. af þurrkuðum ávöxtum og hnetum?

Við matarinnkaup held ég mig við heilsusamlega vöru og tek ég því lítið eftir því sem á sér stað í snakk- og gosdeildunum. Eftir að hafa horft á myndina heimsótti ég nokkrar verslanir mér til skemmtunar og flokkaði matvöru sem nothæfa og ónothæfa og komst að því að ruslfæði sligar hillur og vörubretti í mun meira magni en fólk grunar. Ég hvet lesendur til að gera það sama í næstu búðarferð og sjá þetta með eigin augum.

Skilgreiningarnar á nothæfri og ónothæfri matvöru voru einfaldar og þess eðlis að auðvelt væri að sjá hvorum flokknum matvara tilheyrði. Vörur sem innihéldu sykur eða sætuefni, rotvarnarefni, herta fitu, msg, mikið salt eða ger, hvítt hveiti, tilbúin litar- og bragðefni og fleira í þessum dúr kallaði ég blákalt ónothæfar. Nothæfu vörurnar voru lausar við allt ofantalið og var þumalputtareglan að varan skyldi vera einföld og lítið unnin.

Eitt sem mér þótti myndin koma sérstaklega vel á framfæri var raunveruleg ábyrgð heilbrigðisyfirvalda til að koma í veg fyrir þróun eins og þá sem varð til þess að 2/3 hlutar Bandaríkjamanna eru of þungir. Auðvitað ber hver og einn ábyrgð á sínu lífi en þó fyndist manni betra að vita af yfirvöldum sem legðu sig fram við að stuðla að heilbrigðum lífsstíl frekar en að finna leiðir til að troða sem mestum mat ofan í fólk í þágu gallaðrar landbúnaðarstefnu. Þekki þetta ekki hér heima en tel gagnlegt að vera á verði.

Samanburðurinn við reykingar var, að mínu mati, sú tuska sem allir þurfa að fá í andlitið því í raun eru vandamálin ansi lík. Fyrir nokkrum árum talaði reykingafólk um það sem skerðingu á einstaklingsfrelsi þegar reykingabann á t.d. veitingahúsum var nefnt og má vera að það sama beri upp í þessu samhengi og sjálfsagt finnst mörgum of djúpt í árinni tekið að líkja vandamálunum saman. Hvað finnst ykkur?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í Bretlandi vill einhver ráðherra sækja foreldra til ska fyrir ofbeldi ef börnin þeirra þjást af offitu.
Ruslfæði er ekki ávanabindandi á sama hátt og níkotín og heróín, en það er greinilega sjúkleg fíkn líka...

baldur sagði...

Það má vissulega færa rök fyrir því sem ráðherrann segir þar sem ljóst er að ekki eru það börnin sem versla í matinn. Þetta er að mínu mati svipað og óbeinar reykingar þar sem börnin verða fyrir ákaflega neikvæðum umhverfisáhrifum, án þess að fá rönd við reist.

Hins vegar mætti þessi ráðherra alveg líta til þeirrar ábyrgðar sem fylgir því að hafa langan skóladag og ruslfæði í kantínum ríkisrekinna skóla. Ekki þekki ég landbúnaðarstefnu Bretlands en séu sömu götin í henni og þeirri bandarísku þarf heldur betur að fara í saumana á þessu máli.

Hafi einhver lesenda á tilfinningunni að matgræðgi sín sé sjúkleg eða á erfitt með að rækta með sér heilbrigð viðhorf til matar, bendi ég á vef Overeaters Anonymous.

Sjálfur hef ég ekki reynslu af starfsemi þeirra en þekki fólk sem hefur náð að snúa matarfíknina niður með hjálp þeirra.

Unknown sagði...

Hjartanlega sammála.
Ruslfæðisfíkn er áunnin og er ábyrgð hins opinbera talsverð.
Mjög þarft að benda á OA!

Unknown sagði...

Þetta er mjög góð spóla og þakka þér fyrir að vekja athygli á henni. Ég hef sjálfur alltaf haft þetta á tilfinningunni að aðalorsök sjúkdóma og heilsubrests liggi ekki í reykingum (hér er verið að hengja bakara fyrir smið), heldur í matnum og því sem fólk lætur ofaní sig, en það skiptir ekki síður máli hverning fólk borðar. Á Íslandi hefur sama pólitik verið viðhöfð og í US varðandi niðurgreiðslur á mat, sbr. smjör og mör. Frægasta dæmið sem ég man eftir í seinni tið var þegar Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðrráðherra, kom í veg fyrir innflutning á tofu því það skákaði innlendum landbúnaði. Í US er það merkt sérstaklega sem matur fyrir hjartasjúkdóma! Hér leggja menn ofurtolla á allt sem kemur þeim til góða, einnig lyf! Stjórnvöld halda enn áfram að styðja óhollan mat með niðurgreiðslum á innlendum landbúnaði, banna að flytja inn kartöflur, nema þá frá Póllandi með 1 sentimeters þykku hýði o.s.frv. Fólk á að ráða því sjálft hvort það reykir, hvað það borðar og hvernig. Hvort það fari inn á veitingarhús þar sem er reykt eða ekki. Það má aldrei taka valið af fóli í nafni einhvers. Hvar endum við þá? Nýtt Sovét? Hins vegar fylgir öllu vali ábyrgð og þar kemur að því sem máli skiptir. Stjórnvöld skekkja val einstaklinga með niðurgreiðslum. Þær á leggja af, ekki að taka valmögleika af fólki. Þá má ekki gleyma því að við værum ekki hér ef við hefðum ekki valið, sbr. Adam og Eva. Hefði ekki verið einfaldara að eplið hefið verið bannað? Bestu kveðjur

baldur sagði...

Ekki veit ég nú hvort er verra, reykingar eða ruslfæði, en hitt veit ég þó að hvorugt getur á nokkurn hátt talist til heilbrigðs lífsstíls.

Þar með tel ég, t.d. í tilfelli barna, að þættirnir séu á nákvæmlega sama kalíberi: Barnið hefur ekkert um reykingar í heimahúsum eða bílum að segja né kaupir það sjálft í matinn.

Sorglegt er að heyra að almannafé, um allan heim greinilega, skuli eytt í framleiðslu matvæla sem enginn þarf. Það er sannarlega kominn tími til aukinnar vitundar í þessum málum.

Góð byrjun er að sneiða hjá vörum og veitingahúsum sem selja ruslfæði, því það er jú rétt að neytendur bera ábyrgð. Í sama skrefi er snjallt að verja fé sínu frekar í varning og veitingahús sem veita raunverulega næringu.

Það er svo margt sem neytendur geta áorkað, svo fremi að fólk sé staðfast og upplýst.

Nafnlaus sagði...

Feitt fólk, mer finst thad ekki "govermental" fólk ætti bara ad axla ábyrgð á sjálfum ser og hætta thessum afsökunum.

og með ad reykja, thad reykir einginn sem er succsessful nema sá sé ad fara ad hrapa eftir gott flug.

"thad er ríkistjórninni ad kenna ad eg borðaði 3 happy meal á mac donalds. fucking get real Blame your self for everything