miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Allir á móti öllum

Oft á tíðum finnst mér sem heilsuumræðan ætli að eta sjálfa sig lifandi. Hvað á ég við með því? Jú, einn þjálfari sérhæfir sig í einni tegund þjálfunar og predikar hana sem hið endanlega svar við öllum heilsuvandamálum nútímans. Oft leiðast predikanirnar út í að telja upp vankanta og ófullkomnanir annara aðferða og þegar komið er út í þá sálma hefjast rifrildi og upphafleg markmið gleymast, þetta verða eins konar trúarbrögð.

Oft hefur fólk eitthvað til síns máls og vissulega eru æfingaprógrömm og aðferðir misvel úr garði gerðar, eins og gengur. Að mínu mati hefur þessi umræða hins vegar ruglað hinn almenna leikmann í ríminu og svo mjög að sumir leggja ekki einu sinni út í að æfa, einfaldlega allt of flókið fyrirbæri.

Leitin að hinu fullkomna æfingaprógrammi er hafin og hún mun taka langan tíma, það langan tíma að við ættum að æfa eitthvað á meðan. Þetta er að sumu leyti eins og að skrifa ritgerð, sama hvað maður leitar lengi að heimildum þá kemur ekkert út nema maður skrifi. Það er mikilvægt að setja undirbúningsferlinu ákveðin tímamörk og hefjast handa eftir það.

Hvers vegna að velta okkur upp úr smáatriðum eins og hvort sé betra að gera fjögur sett eða fimm þegar samfélagið stendur frammi fyrir umtalsvert alvarlegri vandamálum eins og t.d. offitu og óendanlega mörgum öðrum kvillum tengdum gölluðu líferni. Því hvet ég alla til drífa sig af stað, byrja að gera eitthvað frekar en ekki neitt. Tíu armbeygjur eru ekki aðeins margfalt betri en engar heldur óendanlega, það sama gildir um göngutúra, sundferðir, lyftingar, skokk og bara allt heila klabbið. Hver veit svo nema einhverju okkar takist að finna hið fullkomna prógramm einhvers staðar á leiðinni. Þó er ábyggilegt að til þess þarf að prófa ýmislegt :)

Hér koma tenglar á greinar sem henta mismunandi markmiðum:
Ítarleg og afar góð grein Mikes Mahlers um heilsu og þjálfun fyrir almenning
Æfingarútínur Daves Drapers, mestmegnis vaxtarræktarmiðaðar og með skemmtilegu kraftívafi en þó þess eðlis að allir sem hafa gaman af lyftingum finna eitthvað við sitt hæfi
Lærið að sippa hjá Ross Enamait
Hressandi tuska í andlitið fyrir bókstafstrúarfólk innan æfingageirans

4 ummæli:

Unknown sagði...

Já, lifa lífinu lifandi!
;-)

baldur sagði...

Já, heldur betur. Því er nú einu sinni þannig farið að lífið er bæði allt of langt og allt of stutt til að eyða því í eitthvað leiðinlegt.

Unknown sagði...

já og maður gerir best það sem manni finnst skemmtilegast...
og ef manni finnst e-ð leiðinlegt gerir maður það bara skemmtilegt.

ásdís maría sagði...

Ó hve gaman er að lesa þetta heilsublogg, rökhugsun og eldmóður í fyrirrúmi, það er minn jurtatebolli ;)