sunnudagur, apríl 15, 2012

Jóga

Langar til að deila með ykkur þremur stuttum myndböndum af Ashtanga Yoga. Ashtanga Yoga byggist á seríum eða æfingaröðum sem nemendum eru skammtaðar eftir því hvað líkami þeirra leyfir hverju sinni. Ashtanga Yoga er því mikilvægt að stunda undir handleiðslu kennara sem sér og veit hvað iðkandinn er tilbúinn í auk þess þetta snýst um fleira en líkamsstöðurnar einar og sér.

Ég byrjaði sjálfur að stunda Ashtanga undir traustri handleiðslu Ingibjargar í Yogashala við Engjateig, aðeins innar en Gló, og hef síðan þá ferðast víða og æft undir handleiðslu kennara hér og þar og á leiðinni hlotið kennararéttindi. Eftir öll þessi ferðalög er það einlæg skoðun mín að Yogashala er jógastöð á heimsvísu og mitt persónulega uppáhald í bransanum.

Í myndböndunum að neðan má sjá Santinu gera fyrstu þrjár seríurnar og liggur að baki áralöng og öguð þjálfun þannig að hún bókstaflega svífur í gegnum þetta.





mánudagur, apríl 09, 2012

Sjófær er sjötugur



Jack LaLanne er þekktur fyrir allt annað en linkind og letilíf. Á sjötíu ára afmælisdaginn synti hann í handjárnum eina mílu með 70 árabáta í eftirdragi. Um borð í bátunum voru 70 farþegar. Aðspurður sagði hann leyndarmál sitt fyrir góðri heilsu og mikilli orku fyrst og fremst liggja í jákvæðu hugarfari og þeirri staðreynd að hann borðaði hollan mat og missti aldrei úr æfingu. Hann  lést í janúar í fyrra, 96 ára, en heldur áfram að hvetja fólk til dáða og mun ábyggilega gera um ókomna tíð.

fimmtudagur, mars 29, 2012

Raw Iron

Ekki eins þekkt og hin ágæta Pumping Iron, myndin sem ég setti út um daginn. Hér er farið á bakvið tjöldin og í saumana á senunni úr Pumping Iron. Ég sá þessa mynd í fyrsta sinn nú fyrir stuttu og þótti gaman og eiginlega bara nauðsynlegt að fá lausa enda úr Pumping Iron á hreint, eins og t.d. hve mikið af þeirri mynd er heimild og hve mikið er krydd til að gera hana áhugaverða. Samkvæmt þessu var hún bara nokkuð spicy :)

Í Raw Iron eru kempurnar úr Pumping Iron einnig heimsóttar á 25 ára útgáfuafmæli þeirrar síðarnefndu og tekin viðtöl. Slá menn á létta strengi en svara líka alvarlegri spurningum eins og t.d. um steranotkun. Algerlega ómissandi fyrir áhugafólk um vaxtarrækt og hreystimenni ýmiss konar.

mánudagur, mars 26, 2012

Mánudagskaffið

Mikið hefur maður heyrt um að kaffi sé óhollt og er því jafnvel líkt við fúlasta eitur. Má vel vera að eitthvað sé til í því upp að einhverju marki þar sem kaffi er jú þvagræsandi og sé neysla á öðrum vökva lítil getur það leitt til vökvaskorts. Fleiri neikvæðar hliðarverkanir eru svo sem þekktar eins og minni gæði á svefni og svo framvegis.

Í þessum pistli langar mig hins vegar að beina sjónum að því jákvæða. Það er svo gott að vera jákvæður, eykur lífsgæði. Langtímarannsóknir hafa sýnt að áhrif kaffis á blóðþrýsting hafa verið ofmetin en þetta hefur valdið mörgum áhyggjum. Hins vegar er alveg ábyggilegt að langtímaáhyggjur valda háum blóðþrýstingi.



Það sem mér þótti merkilegast þegar ég fór að kafa í kaffibollann var að rannsóknir benda til þess að kaffið getir reynst hjálplegt í baráttu við sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki, Parkinsons-veiki og Alzheimer. Krabbameinin sem kaffið var talið minnka líkur á voru: Brjósta-, blöðruhálskirtils- og ristilkrabbamein. Það eru nefnilega andoxunarefni og pólífenólar í kaffi. Finnst mér vert að nefna það hér að hið svokallaða púðakaffi hefur af einhverjum ástæðum lítið af þessum jákvæðu eiginleikum og tíu sinnum meira af neikvæðu eiginleikunum.

Ég tek fram að þrátt fyrir þessa jákvæðu umfjöllun mæli ég ekki með því að fólk fari að þamba kaffi í miklu magni. Allt er gott í hófi og hvet ég lesendur til að einbeita sér að gæðunum og njóta þess að drekka almennilegt, gott kaffi.

miðvikudagur, mars 21, 2012

Pumping Iron

Hér er á ferðinni myndin sem dró vaxtarræktina inn í sviðsljósið og kom henni inn á kortið fyrir almenning. Þessi mynd hefur haft mikil áhrif á mig og marga aðra, ég horfi reglulega á hana mér til upplyftingar og innblásturs fyrir utan hvað þarna er á ferðinni skemmtileg heimild um það sem margir kalla gullöld vaxtarræktarinnar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð og læt myndina tala sínu máli.



Vilji fólk eignast afmælisútgáfuna í fullum gæðum fæst hún hér fyrir sama og ekki neitt:

miðvikudagur, október 19, 2011

Linsubaunir

Linsubaunir hafa fylgt mannkyni um þúsundir ára og ekki að ástæðulausu. Þær eru nefnilega bragðgóðar, bráðhollar og svo er alveg sérstaklega auðvelt að matreiða þær og bæta þeim út í næstum því hvað sem er. Það tekur yfirleitt ekki nema 20-30 mínútur að sjóða linsubaunir og það þarf ekki að leggja þær í bleyti fyrir suðu.

Í linsubaunum má finna mikið magnesíum en það er mikilvægt steinefni þegar kemur að heilsu hjarta- og æðakerfis. Rannsóknir benda einmitt til þess að magnesíumskortur sé einn af undanförum hjartaáfalla. Magnesíum gegnir einnig mikilvægu hlutverki við að halda beinunum sterkum þar sem það hjálpar líkamanum að nýta kalk úr fæðu.

Linsubaunir eru próteinríkar og til að nýta próteinið betur, bæta inn þeim amínósýrum sem upp á vantar, er kjörið að borða þær með hýðisgrjónum. Ætti að vera auðvelt þar sem hýðisgrjón og linsubaunapottréttur fara alveg sérstaklega vel saman. Sé úthugsuð samsetning eins og þessi notuð uppfyllir próteinið þau skilyrði að kallast "heilt".

Í linsubaunum má einnig finna gnótt B vítamína, járn og afbragðstrefjar. Með öðrum orðum hjálpa þær okkur með orkubúskapinn, blóðið og meltinguna. Öll þessi næring og samt svo fáar hitaeiningar, í einum bolla (sem er ansi saðsamur) af soðnum linsum eru aðeins 230 hitaeiningar. Við erum semsé með andstæðu þess sem kallað er "tómar hitaeiningar". Tómar hitaeiningar eru hitaeiningar sem gefa bara orku en ekkert af þeim vítamínum eða steinefnum sem þarf til að vinna orkuna úr fæðunni.

Ef einhvern langar að prófa sérstakar linsubaunauppskriftir þá eru nokkrar áhugaverðar hér. Einnig er kjörið að henda eins og hálfum til einum bolla af soðnum linsum út í pastasósu eða í grænmetissúpur og prófa sig áfram með frumlegum tilraununm :)

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Andinn og efnið

Það þarf víst ekki að fjölyrða eða útskýra í smáatriðum að andinn og efnið hafa í flestum tilfellum mikil áhrif hvort á annað. Þó finnst mér liggja í augum uppi að andinn sé stærri breyta þar sem efnið er í eðli sínu óvaranlegt.

Sjálfur geri ég ýmislegt til þess að hafa góð áhrif á andann og þykir það jafnan skila sér í betri líkamlegri líðan. Oftar en ekki er þetta eitthvað eins og að fara í göngutúr en gera það með því markmiði að láta mér líða vel, njóta útsýnis og fersks lofts. Sé maður í vondu skapi eða taugastrekktur getur t.d. verið sérlega gott að einbeita sér að því að ganga rólega og anda djúpt. Þetta krefst vissulega einbeitingar því eðlileg viðbrögð eru jú að storma áfram.

En ekki þarf endilega að fara neitt til að hafa áhrif á andann. Oft er gott að hlusta á fallega tónlist eða einfaldlega slaka á með því að fylgjast með andardrættinum, smáfuglum eða bara bílum. Slaka aðeins á. Aðalakosturinn er að þetta má gera hvar sem er og ekki þarf að fara eitt eða neitt.

Til að sýna fram á neikvæð áhrif andans á efnið má nefna andlega streitu. Magasýrur, meltingartruflanir, lítil matarlyst, örari hjartsláttur og svo spinnst einhver hringavitleysa af stað, sérstaklega ef ástandið er langvarandi. Er þá ekki betra að gera eins og pabbi minn kenndi mér þegar ég var lítill? Að anda með nefinu og telja upp á tíu :)

Í þessari grein má lesa um heilsufarslegan ávinning hugleiðslu og slökunar og hér má hlusta á frábæra tónlist.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Að sippa eða ekki sippa?

Það er sannarlega hægt að þjálfa allt í senn einbeitingu, samhæfingu, þol og snerpu með einu einföldu bandi. Kíkið á hann Ross, sá kann að sippa:



þriðjudagur, október 28, 2008

Heilsa

Oft þegar talað er um heilsu er andleg heilsa skilin útundan. Það er þó af og frá að skilja hana undan því í andanum er jú lykillinn að kraftinum til að gera nokkurn skapaðan hlut. Rétt eins og þegar kemur að leikfimi er hægt að feta margan slóðann til að bæta andlega heilsu.

Ein aðferðin er að lesa eitthvað sem veitir innblástur, þetta gæti t.d. verið vel skrifuð skáldsaga eða bíómynd. Önnur aðferðin er að slaka meðvitað á með aðstoð tónlistar, öndunaræfinga eða einfaldlega rólegri gönguferð úti í náttúrunni. Jákvætt og uppbyggilegt sjálfstal er frábært atriði á þennan lista en það er mikið notað og með góðum árangri. Meðal þeirra sem nota jákvætt sjálfstal eru afreksíþróttamenn.

Hugleiðsla er svo enn eitt verkfærið og geysiöflugt. Margar leiðir eru í boði og um að gera að kynna sér málið. Óháð því hvaða aðferð er notuð er mikilvægt að ástunda hana jafnt og þétt svo ávinningurinn verði einhver.

miðvikudagur, október 15, 2008

Morgungrautur Gabríels

Grautur þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér. Uppskriftina er að finna utan á bankabyggi frá Móður Jörð. Það er snilld að setja þetta í gang á kvöldin og ganga svo að þessu sem vísu að morgni. Svona hljóðar uppskriftin:

3 dl bankabygg, 9 dl vatn, 2 epli skorin í litla teninga, 1-2 dl rúsínur, 1 msk kanill, 2 tsk salt, 1-2 dl fræ eftir smekk, t.d. sólblómafræ og/eða graskersfræ. (+2 tsk hungang og 1 dl döðlur fyrir sælkera)

Öllu þessu er dúndrað í pott, soðið í u.þ.b. fimm mínútur, síðan slökkt undir, lokið sett á pottinn og farið að sofa (eða í vinnuna eða eitthvað).

Ég borða grautinn yfirleitt kaldan (en vitanlega má hita hann upp líka) og nota þá möndlumjólkina úr færslunni á undan útá. Grauturinn er góður nokkra daga í röð og geymist vel í kæli.

laugardagur, september 13, 2008

Prófið þetta, namminamm!

Ég prófaði þessa frábæru möndlumjólkuruppskrift nú á dögunum. Ég mæli með því að möndlurnar séu látnar liggja í bleyti í smátíma t.d. eina nótt. Varðandi hlutföllin þá notaði ég bara tvo bolla af vatni og fékk rosafína mjólk út úr því.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Áhugasamir

Mig langar til að vekja athygli þeirra sem langar að læra jóga á þessa frábæru stöð: Yoga Shala. Um þessar mundir stendur einmitt yfir skráning í grunnnámskeið haldin af þaulreyndum kennurum, kíkið endilega.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Jóga

Hér má sjá einstaklega magnaðar jógaæfingar:



Það þarf nú líklega ekki að taka það fram en byrjendur ættu vitanlega ekki að reyna þessar æfingar, byrja frekar á byrjuninni.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Tónlist

Tónlist hefur án tvímæla áhrif á okkur mannfólkið og er kjörið að nýta sér hana til framdráttar við æfingar. Persónulega finnst mér fátt jafnast á við tvöfaldan espressó, Rage Against the Machine og æfingaprógramm sniðið fyrir Kölska sjálfan. Hef þó ekki hugmynd um hvaða prógrammi Skrattinn er á en það hlýtur að vera rosalegt :)

Misjafn er þó smekkur manna og verður hver að finna eitthvað við sitt hæfi. Þetta lag má ég t.d. varla heyra án þess að byrja að skuggaboxa, hlaupa, gera armbeygjur og þar fram eftir götunum.

Tónlistina þarf þó ekki að takmarka við að peppa sig upp því hana má einnig nota til að slaka á eftir átökin. Fyrir þá vísindasinnuðu fann ég stutta grein um æfingar og tónlist.