mánudagur, október 08, 2007

Algerir byrjendur: Sund

Sund er bæði skemmtileg og góð alhliða líkamsþjálfun sem auðvelt er að stunda, enda nóg af sundlaugum á Íslandi. Sundiðkun krefst ekki dýrs búnaðar og er hægt að fá góð sundgleraugu og sundhettur í flestum íþróttaverslunum, mæli líka með að fólk fái sér sundbol eða -skýlu. Seinna meir má bæta við útbúnaði eins og froskalöppum, en þær gera manni kleift að komast mun hraðar yfir (mikið stuð).

Flestir sem ég sé í laugunum nota bringusundið en þó eru skriðsundsiðkendur þar í bland. Flugsund og bakskriðsund sé ég mun sjaldnar og er það helst ef sundæfingar keppnisfólks eru í gangi. Vart þarf að minnast á þau lífsgæði sem fólgin eru í því að vera einn með sjálfum sér og heyra ekkert nema vatnsgjálfur og eigin andardrátt, eins konar hugleiðsla og þar af leiðandi hentar sundið nútímafólki sérdeilis vel.

Til þess að gera sundástundun að raunverulegri líkamsrækt og uppskera einhvern ávinning er nauðsynlegt að stunda æfingar reglulega, t.d. er margfalt betra að synda 1000 metra þrisvar í viku en að böðla sér í gegnum 5000 metra einu sinni í viku. Vegalengdin segir þó ekki alla söguna því 200 metra flugsund er flestum umtalsvert erfiðara, ef ekki ómögulegt, en 200 metra bringusund og ekki er sama hvort synt sé hratt eða hægt.

Góð leið til að fylgjast með árangri er að taka tímann á hve lengi maður er að synda t.d. 500 metra eða hve langt maður kemst á föstum tíma t.d. 12 mínútum. Heppilegt er að gera slíka mælingu mánaðarlega. Að fylgjast með árangrinum gerir þjálfunina markvissari auk þess sem upplýsingar úr slíkum athugunum eru bæði gagnlegar og oft skemmtilegar.

Í þessu sýnisprógramm nota ég bæði bringu- og skriðsund og geng út frá að bringusundið sé sá sundstíll sem reynist léttari. Áætlunin miðast við fjórar vikur og að fjórum vikum loknum má endurtaka leikinn með breyttum áherslum miðað við aukna hreysti. Allar æfingarnar eru hannaðar miðað við þrjú skipti í viku og henta vel samhliða styrktarþjálfun af einhverju tagi.

Fyrsta vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
200 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
200 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 800 metrar

Önnur vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
300 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1000 metrar

Þriðja vika
200 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
400 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
100 metra bringusund, tvö handatök fyrir hvert fótatak
200 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1200 metrar

Fjórða vika
300 metra bringusund á þægilegum hraða
300 metra bringusund, aðra hverja ferð er aðeins andað í öðru hverju taki
400 metra bringu- og skriðsund til skiptis, bringusundið rólegt en skriðsundið hratt
4 x 50 sprettir með sundaðferð að eigin vali. Eftir hvern sprett skal hvílt í 20-30 sekúndur
300 metra bringusund, tvö handatök fyrir hvert fótatak
300 metra bringusund á þægilegum hraða
Samtals 1800 metrar

Hafirðu áhuga á að gera meiri alvöru úr sundiðkuninni eru sundfélög starfrækt út um allt land. Mörg þeirra bjóða upp á æfingar fyrir þá sem ekki eru lengur gjaldgengir á ungmennafélagsmót, æfingar í garpaflokki fyrir bæði karla og konur. Skorti þig færni í einhverri af sundaðferðunum fjórum eða langar til að læra nýja er kjörið að skella sér á fullorðinssundnámskeið, aldrei of seint að byrja. Þessi námskeið eru gjarnan auglýst í afgreiðslu sundlauga. Góða skemmtun!

Að lokum er stutt grein með ýmsum ábendingum fyrir byrjendur sem kunna að synda en vilja bæta tæknina.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Mig langar bara að skella mér í sund við lestur greinarinnar :-)

baldur sagði...

Til þess var nú leikurinn gerður, að hvetja fólk áfram. Fagna því að það skuli virka :)