laugardagur, október 06, 2007

Viðtal við Ori Hofmekler



Í þessu myndskeiði kynnir höfundurinn Ori Hofmekler nýjustu bók sína: The Anti-Estrogenic Diet. Ég hef ekki lesið hana en viðurkenni að ég hlakka mjög til að hakka hana í mig.

Ég kynntist verkum Oris Hofmeklers vorið 2006 þegar ég las bók hans The Warrior Diet. Áður hafði ég kynnt mér grundvallaratriðin í þeim lífsstíl sem hann leggur til í bókinni og þótti þau vægast sagt athyglisverð. Það sem sérstaklega vakti athygli mína var að þarna voru á ferðinni kenningar sem pössuðu ekki að neinu leyti við megnið af því sem heilsuspekúlantar nútímans predika. Þrátt fyrir góðan rökstuðning var ég enn svolítið efins en vitanlega forvitinn.

Þegar þannig er komið fyrir mér geri ég venjulega tilraun á sjálfum mér og hef gert nokkrar slíkar í gegnum tíðina. Tilraunir af þessu tagi geri ég þannig að ég fylgi fræðunum staf fyrir staf, fylgist grannt með því sem ég borða og hvernig mér líður frá degi til dags. Auk þess held ég nákvæma æfingadagbók svo ég sjái svart á hvítu hvort tilraunin bitni á eða bæti styrk og þol.

Að fjórum vikum loknum komst ég að því að lífsstíllinn hentaði mér ansi vel, styrkur og þol jukust ef eitthvað var, mér leið mjög vel og ekki spillti að fituprósentan hafði lækkað. Í staðinn fyrir að hætta eftir fjórar vikur hélt ég áfram og hef nú lifað þessum lífsstíl meira og minna síðan í júníbyrjun 2006. Margir urðu forvitnir og spurðu hvort ég væri ekki orkulaus á svona mataræði en sannleikurinn var sá að ég var orkumeiri en áður og ekki háður blóðsykursveiflum daginn út og inn eins og t.d. vinnufélagar mínir á þeim tíma.

Af einskærum áhuga og eðlislægri forvitni um hvað ætti sér stað í líkamanaum las ég aðra bók eftir kauða, Maximum Muscle - Minimum Fat, og hafði ákaflega gaman af. Þarna eru á ferðinni sömu grundvallarprinsipp en með mun vísindalegri nálgun, enn meiri rökstuðningi og ekki víst að almenningur hafi jafngaman af slíkri lesningu. Bókina myndi ég hins vegar kalla nauðsynlegt ítarefni fyrir þá sem vilja hin raunverulegu fræði á bak við warrior kenninguna og hafa einhvern skilning eða áhuga á líffræði.

Til að gefa ykkur smáhugmynd um hvað kenningar Oris ganga út á þá er einn af rauðu þráðunum t.d. að neyta matvæla sem laus eru við skordýraeitur og niðurbrotsefni hormóna- og sýklalyfja, semsagt lífrænna matvæla og færir hann mörg góð og gild rök fyrir því. Aðalþráðurinn er þó tímasetning máltíðanna, að fasta yfir daginn og borða stóran kvöldverð. Þannig að tuttugu tíma fastar maður og hefur svo fjóra tíma til að fullnægja næringarþörf líkamans.

Tuttugu tíma fasta kann að hljóma sem erfið hugmynd og fyrir þá sem finnst það er hughreystandi að átta tímum af þessum tuttugu er varið í svefn. Annar þáttur sem gerir þetta auðveldara en ella er að fastan gengur fyrst og fremst út á að afeitra líkamann og er því frábært að notast við nýpressaða grænmetis- og ávaxtasafa, grænmetissoð eða einfaldlega ávexti og grænmeti eins og þau koma fyrir í náttúrunni. Einnig er tedrykkja er af hinu góða í föstuferlinu.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér grunnhugmyndirnar betur áður en farið er út í lestur bóka eða tilraunir með nýjan lífsstíl eru hér nokkrir tenglar:

Upplýsingar á heimasíðu Warrior Diet
Viðtal á bodybuilding.com
Stutt samantekt frá öðrum sem gerði tilraun á sjálfum sér :)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ

Núna er hann Þorri litli orðinn 4ra mánaða og fyrir löngu löngu kominn tími til að byrja aftur að hreyfa sig (fyrir utan göngutúrana með vagninn)! Leit hérna inn til þess að fá smá hvatningu, þú klikkar aldrei á því. Verð vonandi reglulegur gestur og ekki eins og hann "Jón" í færslunni hér fyrir neðan.

baldur sagði...

Gaman að heyra að Þorri sé að verða stór strákur, hlakka til að hitta hann.

Ég er feginn að síðan veiti fólki innblástur því oft á tíðum vantar svo lítið upp á.

Þú ert sko alltaf velkomin og alveg klárt að þér verður ekki hleypt í klúbbinn hans Jóns ;)

Nafnlaus sagði...

Jess! þetta hljómar eins og eitthvað fyrir mig! Eins og mér finnst gaman að borða góðan mat. leiðist mér alveg ferlega að næra mig yfir daginn. Búinn að panta þessa bók

baldur sagði...

Hljómar eins og þetta eigi vel við þig, það reyndist sannarlega vera þannig í mínu tilfelli. Ég óska þér bara til hamingju.

Hverja af bókunum pantaðirðu?