þriðjudagur, október 16, 2007

Linkind

Hvar á ég að byrja? Eins og gefur að skilja les ég og fylgist vel með umræðu og nýjungum á sviði þjálfunar. Nokkuð finnst mér um að óraunhæfar væntingar séu á kreiki en tek þó fram að ég er síðasti maður til að reyna að draga úr einum né neinum á þessu sviði.

Fyrir þá sem vilja ná undraverðum árangri með ótrúlega lítilli fyrirhöfn segi ég: Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega lygi. Vissulega má segja að árangur sé oft á tíðum undraverður en manni finnst það þó sjaldnast þegar maður veit hve mikil vinna býr að baki.

Alla jafna fylgja þessum loforðum himinhá útgjöld og eru hin ýmsu fæðubótarefni og göldrum búin æfingatæki næg sönnun. Hér er eitt dæmi um slíkt. Framleiðandi tækisins býður fólki að greiða 14.615 dollara til að fá léttu leiðina heim í stofu. Ég veit ekkert um þetta tæki annað en að það er dýrt.

Ég ætla ekki að byrja að telja upp undraefnin sem neytendum standa til boða. Í flestum heilsutímaritum er ofgnótt auglýsinga fyrir þessi efni og öll segjast þau vera í fararbroddi á sínu sviði, t.d. fitubrennslu eða vöðvauppbyggingar. Einn hængur er þó á fullyrðingum þeirra! Hvernig geta 50 eða 500 ólíkir framleiðendur verið með besta undraefni sem sögur fara af? Ekki mikill fararbroddur það. Mér finnst fnykurinn af málinu gefa til kynna að þetta snúist eingöngu um létta leið til að gera örfáa ríka fremur en létta leið fyrir marga til að bæta heilsuna. Látið ekki ginnast. Ef þessar lausnir væru raunverulegar litum við öll út eins og toppíþróttafólk með því einu að borða kartöfluflögur.

Greinilegt er þó að einhver kaupir þetta dót úr því að meira og meira er framleitt og er þar um að kenna almennri linkind. Þegar agann til að skuldbinda sig til að hirða almennilega um líkamann vantar er leitað á náðir skyndilausna. Linkind einkennir allt of marga hluti í nútímanum og langar mig að taka lítið dæmi.

Um tíma bjó ég á stúdentagörðunum við Háskóla Íslands og er fimm til tíu mínútna gangur í flestar háskólabyggingar á svæðinu. Þrátt fyrir þessa æðislegu staðsetningu fóru margir á bílnum í skólann. Þarf ég að segja meira? Eru þægindin orðin okkur bókstaflegur fjötur um fót?

Fyrir skömmu skrifaði ég grein um Steve Reeves og nokkrar af hans kenningum um heilbrigt líferni. Með greininni fylgdi mynd af Reeves í toppformi og er alveg á hreinu að hann gerði gott betur en að mæta á æfingar og hafa ófáir svitalítrarnir farið í þá vinnu sem býr að baki slíkri líkamsbyggingu. Engin létt leið þar frekar en annars staðar.

Hver sem markmiðin eru þarf alltaf að feta leiðina. Sé markmiðið að brenna tveimur kílóum af fitu og bæta tveimur kílóum af vöðvum í staðinn er heilmikil vinna framundan. Sé markmiðið að brenna fimm kílóum af fitu án þess að minnka eða auka vöðvamassa er líka heilmikil vinna framundan. Hvað sem það er þá þurfum við alltaf að leggja eitthvað á okkur sjálf.

Harðsoðna útgáfan:
Linkind gerir okkur að linum kindum...
Harkan sex með hæfilegri blöndu af vitrænni nálgun og ástríðu færir okkur að markmiðum okkar :)

Engin ummæli: