föstudagur, október 12, 2007

Margt má læra af Steve Reeves

Steve Reeves er eitt af nöfnunum sem ekki fer framhjá þeim sem hafa áhuga á heilsurækt, sögu hennar og áhrifavöldum. Leið hans inn á sjónarsviðið lá í gegnum vaxtarræktina, sem á þeim tíma var nánast óþekkt fyrirbæri og afar ólík þeirri vaxtarrækt sem tíðkast nú á dögum. Að mínu mati var sú íþrótt miklum mun heilbrigðari en efnafræðikeppnir nútímans.

Hafi nafn Steves ekki læðst að manni í gegnum heilsuræktaráhuga þá tryggði Frank-N-Furter í myndinni Rocky Horror að það kæmist til skila þegar hann tælir Brad og Janet inn til sín: We could take in an old Steeve Reeves movie, og er alveg á tæru að áhugi Frank-N-Furters snerist ekki að neinu leyti um kenningar Steves um matarræði og þjálfun. Steve Reeves var, og er enn, í augum margra einn besti fulltrúi hins heilbrigða og hrausta karlmanns, fullkomin eftirmynd grísku guðanna. Ef hvorugt dæmið klingir bjöllum meðal lesenda er kominn tími til að bæta úr því.

En hvers lags lifnað stundaði maður á borð við Steve Reeves? Æfði hann ekki kvölds og morgna? Át hann ekki sex máltíðir á dag og sneiddi hjá kolvetnum? Borðaði hann ekki reiðarinnar býsn af prótíni? Nei, ekki æfði hann kvölds og morgna, ekki var hann með kolvetna-, fitu- eða prótínáráttu og hann borðaði yfirleitt ekki nema þrisvar á dag.

Æfingaáætlanir hans voru einfaldar og það voru matarvenjurnar einnig. Til að gefa hugmynd um æfingaaðferðir hans þá voru lyftingar og kraftganga þær æfingar sem hann mælti helst með. Í kenningum sínum leggur hann til að lyftingar séu ekki stundaðar oftar en þrisvar í viku og hæfilegt sé að stunda kraftgönguna fjórum sinnum í viku u.þ.b. hálftíma í senn. Djúpöndun lagði hann einnig ríka áherslu á og taldi bein tengsl á milli hennar og aukinnar orku einstaklinga.

Hvað lyftingarnar snerti þá þjálfaði hann líkamann sem heild en breytti fjölda endurtekninga og setta í samræmi við markmið og áherslur hverju sinni. Hvernig væri lyft skipti miklu máli því lyftingar og lyftingar eru ekki alltaf sami hluturinn, einkum og sér í lagi þegar kemur að góðri og agaðri tækni.

Margt tel ég að nútímamaðurinn geti lært af kenningum Steves Reeves þó svo að auðvitað séu til margir stígar að einu og sama markmiðinu, þjálfunar- og næringarfræði engar undantekningar þar. Því meira sem rýnt er í málin má sjá að ólíkar leiðir henta mismunandi fólki en allar eiga þær þó eitt sameiginlegt: Árangur er bein afleiðing gjörða okkar, við uppskerum eins og við sáum.

Ástæða þess að ég endurorðaði máltækið gamalreynda var sú að ég vildi tengja nafnorðið árangur við sögnina að gera. Ég get ekki beðið aðra að æfa fyrir mig, ég þarf að gera það sjálfur. Í stuttu máli sagt þá snaraukast líkurnar á árangri ef leiðbeiningum Steves er fylgt eftir, að ég tali nú ekki um í samanburði við að lesa um þær og láta þar við sitja.

Ítarefni:
Góð yfirlitsgrein frá Mike Mahler
Heimasíða Steves Reeves heitins
Grein um Steve Reeves á wikipediu

1 ummæli:

Unknown sagði...

mikið er þetta flott síða!